Sjóflutningar á heimshöfunum hafa dregist mikið saman. Þetta á sérstaklega við um siglingar á milli Asíu og Evrópu og Asíu og Ameríku. Talið er að flutt magn með skipum á árinu 2008 hafi verið liðlega 7% minna en árið áður. Í desember síðastliðnum hafði magnið dregist saman í 17 mánuði samfellt.
Á fréttavefnum purchase.com segir að árið 2008 hafi verið slæmt fyrir alþjóðlegar hafnir og ekki sé gert ráð fyrir að árið 2009 verði betra. Reyndar hefur Reuters-fréttastofan eftir Nils Andersen hjá A.P. Moller-Maersk, að þetta ár verði mjög erfitt. Segist hann munu verða hissa ef flutningar á höfunum munu aukast fyrir árslok 2010.
Í frétt á breska fréttavefnum telegraph.co.uk segir að verð á sjóflutningum til og frá Asíu hafi fallið mikið að undanförnu vegna kreppunnar.