Seðlabanki Ungverjalands hefur lækkað stýrivexti sína um 0,5 prósentustig úr 10,0% í 9,5%. Þetta er fjórða vaxtalækkun bankans á innan við tveimur mánuðum en bankinn hefur lækkað vextina um 0,5 prósentustig í hvert skiptið.
Í tilkynningu frá ungverska seðlabankanum segir að ákvörðun um vaxtalækkun sé tekin á grundvelli þess að útlit sé fyrir að verðbólgan í landinu verði minni á næstunni en spáð hafði verið. Þar að auki sé útlit fyrir minni hagvöxt en ráð var fyrir gert.