Fréttaskýring: Íslandsskírskotanir tíðar í breskri efnahagsumræðu

Gordon Brown og Alistair Darling á blaðamannafundi í gær.
Gordon Brown og Alistair Darling á blaðamannafundi í gær. Reuters

Ísland og hrun bank­anna og efna­hags­lífs­ins ber nú æ oft­ar á góma í umræðum um stöðu banka og efna­hags­lífs­ins í Bretlandi. Risatap Royal Bank of Scot­land  hef­ur eðli­lega farið fyr­ir brjóstið á mörg­um og Gor­don Brown, for­sæt­is­ráðherra, og fjár­málaráðherr­ann Al­ista­ir Darling áttu ekki sjö dag­ana sæla á blaðamanna­fundi í gær þegar þeir kynntu nýja björg­un­ar­áætl­un fyr­ir banka­kerfið.

Daily Express seg­ir að for­sæt­is­ráðherr­ann sé nú sakaður um að draga Bret­land fram á brún gjaldþrots með banka­bjög­un­ar­áætl­un sem geti kostað skatt­borg­ara um 50 millj­arða punda til viðbót­ar við þá 37 millj­arða punda sem dælt var í bank­ana seint á síðasta ári og virðist í engu hafa skilað þeim ár­angri sem ætlað var. Þessi síðari björg­un­araðgerð er þessu til viðbót­ar tal­in afar áhættu­söm.

Dálka­höf­und­ar bresku dag­blaðanna draga ekki af sér í gagn­rýni sinni á for­sæt­is­ráðherr­ann, sem þeir segja enn við sama heyg­arðshornið að kenna ut­anaðkom­andi öfl­um um það hvernig komið frek­ar en mistaka á vakt­inni hans meðan hann var fjár­málaráðherra. Hljóm­ar kannski kunn­ug­lega úr umræðunum hér heima fyr­ir.

Í dálki í The Times kem­ur fram að Brown hafi farið und­an í flæm­ingi þegar hann var spurður hvað björg­un­araðgerðin gæti kostað. Var þetta óút­fyllt­ur tékki? „Þvert á móti,“ er haft eft­ir for­sæt­is­ráðherr­an­um, „þú ert al­gjör­lega að mis­skilja kring­um­stæðurn­ar, það er að segja, ef þú ert að láta að því liggja að þetta sé óút­fyllt­ur tékki.“ En það var samt aldrei gef­in upp ein­hver tala, svo það lít­ur út fyr­ir að þannig sé það, seg­ir dálka­höf­und­ur­inn Ann Trenem­ann.

Bret­land eins og Ísland: Vog­un­ar­sjóður

Og spurn­ing­arn­ar urðu gróf­ari, seg­ir hún. „Sum­ir segja að við séum ekk­ert annað en helj­ar­stór vog­un­ar­sjóður, ekki óáþekk Íslandi, og að þjóðar­gjaldþrot sé raun­veru­leg­ur mögu­leiki,“ hef­ur hún eft­ir frétta­manni frá ITN. „Hvað sem þetta ann­ars tákn­ar, hlýt­ur að hafa verið al­gjör brota­löm í banka­reglu­verk­inu.“

Gor­don Brown á að hafa brugðist reiður við, svarað hvasst að þetta væri am­er­ísku und­ir­máls­lán­un­um að kenna. „Ég ber al­gjör­ar brigður á þetta sem þú er segja. Ég vil hvetja þig til að vera var­ká­an í um­mæl­um þínum.“

Í ann­ari grein í The Times skrif­ar Vince Ca­ble sem er talsmaður Frjálsra demó­kra í efna­hags­mál­um og seg­ir þær efa­semd­ir verða út­breidd­ari um að rík­is­stjórn­in sé á réttri leið - nú sé engu lík­ara en verið sé að reyna að blása lífi í lík. Samt sé ekki nema fá­ein­ir mánuðir frá því að rík­is­stjórn­in „bjargaði“ bönk­um sem voru að kom­ast í þrot með milli­bankalána­ábyrgðum og 37 millj­arða punda end­ur­fjármögn­un­ar­pakka fyr­ir RBS/​NatWest og Lloyds/​HBOS.

Nýj­ar lán­veit­ing­ar sem vænst var að sæu dags­ins ljós hafi ekki gert það. Fjöldi góðra smárra, meðal­stórra og stórra  fyr­ir­tæki séu í svelti með rekstr­ar­lán sem ein­ung­is dýpki krepp­una. Það að er­lend­ar banka­stofn­an­ir eru horfn­ar sé vissu­lega þátt­ur í mál­inu. En til viðbót­ar þá hafa bresk­ir bank­ar í aðal­atriðum tekið þann pól í hæðina að halda í fjár­magnið til að mæta frek­ari töp­um, stefna sem róar hlut­haf­ana en gref­ur und­an efna­hags­líf­inu, seg­ir Vince Ca­ble.

Ísland við Thames

Hann seg­ir ljóst að skil­yrðin sem sett voru af hálfu rík­is­stjórn­ar­inn­ar vegna upp­haf­legu end­ur­fjármögn­un­ar­inn­ar hafi verið orðin tóm. Ekk­ert áþreif­an­legt eft­ir­lit eða stýr­ing hafi verið á því að pen­ing­arn­ir færu þangað sem þeir áttu að fara. Bönk­un­um virðist ekki einu sinni hafa verið gert að op­in­bera að fullu og með gegn­sæj­um hætti hin vafa­sömu lán sín.

Ca­ble seg­ir í lok­in að auk þessa vanda vofi ým­iss önn­ur stór­mál yfir. „Við mun­um þurfa að horf­ast í augu við það hvort City - Ísland við Thames eins og farið er að kalla það - er orðið of stórt fyr­ir breskt efna­hags­líf í nú­ver­andi mynd.“

Ekki er bet­ur komið fyr­ir Írum í banka­mál­um og efna­hagskreppu en einnig þar skjóta skír­skot­an­ir til Íslands upp koll­in­um. Í Evr­ópu­dag­bók Irish Times skrif­ar blaðamaður þess frá Brus­sel að þar sé erfitt að sveigja fram­hjá mál­inu þar sem blaðamenn og er­lend­ir sendi­menn séu þar í óða önn að kasta rek­un­um yfir kelt­neska tíg­ur­inn og end­ur­skoða fyrri hrós­yrði um írska efna­hagsundrið.

Hann seg­ir orðspor Írlands sem ör­uggs og hag­stæðs svæðis til fjár­fest­inga hafa beðið mik­inn hnekki í krepp­unni und­an­farið og vitn­ar síðan í Motley Fool-vef­inn þangað sem marg­ir fjár­fest­ar sækja ráðgjöf. Þar sagði í síðustu viku: Þar til á síðasta ári hefði ég aldrei trúað því að hið öfl­uga Kelt­neska tíg­ur-hag­kerfi sem eitt sinn var gæti brugðist. Núna eft­ir fall ís­lenska hag­kerf­is­ins og banka þess verð ég að viður­kenna mögu­leik­ann á því að Írland geti ekki staðið við er­lend­ar skuld­ir sín­ar,“ sagði þar einn dálka­höf­unda þótt hann teldi lík­urn­ar ekki mikl­ar.

Þannig má víða sjá að Ísland er viðmiðið þegar ekki verður neðar kom­ist.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka