Ísland og hrun bankanna og efnahagslífsins ber nú æ oftar á góma í umræðum um stöðu banka og efnahagslífsins í Bretlandi. Risatap Royal Bank of Scotland hefur eðlilega farið fyrir brjóstið á mörgum og Gordon Brown, forsætisráðherra, og fjármálaráðherrann Alistair Darling áttu ekki sjö dagana sæla á blaðamannafundi í gær þegar þeir kynntu nýja björgunaráætlun fyrir bankakerfið.
Daily Express segir að forsætisráðherrann sé nú sakaður um að draga Bretland fram á brún gjaldþrots með bankabjögunaráætlun sem geti kostað skattborgara um 50 milljarða punda til viðbótar við þá 37 milljarða punda sem dælt var í bankana seint á síðasta ári og virðist í engu hafa skilað þeim árangri sem ætlað var. Þessi síðari björgunaraðgerð er þessu til viðbótar talin afar áhættusöm.
Dálkahöfundar bresku dagblaðanna draga ekki af sér í gagnrýni sinni á forsætisráðherrann, sem þeir segja enn við sama heygarðshornið að kenna utanaðkomandi öflum um það hvernig komið frekar en mistaka á vaktinni hans meðan hann var fjármálaráðherra. Hljómar kannski kunnuglega úr umræðunum hér heima fyrir.
Í dálki í The Times kemur fram að Brown hafi farið undan í flæmingi þegar hann var spurður hvað björgunaraðgerðin gæti kostað. Var þetta óútfylltur tékki? „Þvert á móti,“ er haft eftir forsætisráðherranum, „þú ert algjörlega að misskilja kringumstæðurnar, það er að segja, ef þú ert að láta að því liggja að þetta sé óútfylltur tékki.“ En það var samt aldrei gefin upp einhver tala, svo það lítur út fyrir að þannig sé það, segir dálkahöfundurinn Ann Trenemann.
Bretland eins og Ísland: Vogunarsjóður
Og spurningarnar urðu grófari, segir hún. „Sumir segja að við séum ekkert annað en heljarstór vogunarsjóður, ekki óáþekk Íslandi, og að þjóðargjaldþrot sé raunverulegur möguleiki,“ hefur hún eftir fréttamanni frá ITN. „Hvað sem þetta annars táknar, hlýtur að hafa verið algjör brotalöm í bankaregluverkinu.“
Gordon Brown á að hafa brugðist reiður við, svarað hvasst að þetta væri amerísku undirmálslánunum að kenna. „Ég ber algjörar brigður á þetta sem þú er segja. Ég vil hvetja þig til að vera varkáan í ummælum þínum.“
Í annari grein í The Times skrifar Vince Cable sem er talsmaður Frjálsra demókra í efnahagsmálum og segir þær efasemdir verða útbreiddari um að ríkisstjórnin sé á réttri leið - nú sé engu líkara en verið sé að reyna að blása lífi í lík. Samt sé ekki nema fáeinir mánuðir frá því að ríkisstjórnin „bjargaði“ bönkum sem voru að komast í þrot með millibankalánaábyrgðum og 37 milljarða punda endurfjármögnunarpakka fyrir RBS/NatWest og Lloyds/HBOS.
Nýjar lánveitingar sem vænst var að sæu dagsins ljós hafi ekki gert það. Fjöldi góðra smárra, meðalstórra og stórra fyrirtæki séu í svelti með rekstrarlán sem einungis dýpki kreppuna. Það að erlendar bankastofnanir eru horfnar sé vissulega þáttur í málinu. En til viðbótar þá hafa breskir bankar í aðalatriðum tekið þann pól í hæðina að halda í fjármagnið til að mæta frekari töpum, stefna sem róar hluthafana en grefur undan efnahagslífinu, segir Vince Cable.
Ísland við Thames
Hann segir ljóst að skilyrðin sem sett voru af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna upphaflegu endurfjármögnunarinnar hafi verið orðin tóm. Ekkert áþreifanlegt eftirlit eða stýring hafi verið á því að peningarnir færu þangað sem þeir áttu að fara. Bönkunum virðist ekki einu sinni hafa verið gert að opinbera að fullu og með gegnsæjum hætti hin vafasömu lán sín.
Cable segir í lokin að auk þessa vanda vofi ýmiss önnur stórmál yfir. „Við munum þurfa að horfast í augu við það hvort City - Ísland við Thames eins og farið er að kalla það - er orðið of stórt fyrir breskt efnahagslíf í núverandi mynd.“
Ekki er betur komið fyrir Írum í bankamálum og efnahagskreppu en einnig þar skjóta skírskotanir til Íslands upp kollinum. Í Evrópudagbók Irish Times skrifar blaðamaður þess frá Brussel að þar sé erfitt að sveigja framhjá málinu þar sem blaðamenn og erlendir sendimenn séu þar í óða önn að kasta rekunum yfir keltneska tígurinn og endurskoða fyrri hrósyrði um írska efnahagsundrið.
Hann segir orðspor Írlands sem öruggs og hagstæðs svæðis til fjárfestinga hafa beðið mikinn hnekki í kreppunni undanfarið og vitnar síðan í Motley Fool-vefinn þangað sem margir fjárfestar sækja ráðgjöf. Þar sagði í síðustu viku: Þar til á síðasta ári hefði ég aldrei trúað því að hið öfluga Keltneska tígur-hagkerfi sem eitt sinn var gæti brugðist. Núna eftir fall íslenska hagkerfisins og banka þess verð ég að viðurkenna möguleikann á því að Írland geti ekki staðið við erlendar skuldir sínar,“ sagði þar einn dálkahöfunda þótt hann teldi líkurnar ekki miklar.
Þannig má víða sjá að Ísland er viðmiðið þegar ekki verður neðar komist.
„