Helsti samningamaður Japana í hvalveiðimálum segir að taka verði ákvörðun af einhverju tagi á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem haldinn verður á portúgölsku eyjunni Madeira í júní.
„Þetta þarf að verða ár ákvarðananna," segir Joji Morishita, sem hefur setið lengi í sendinefnd Japana hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu. „Við þurfum að ná umtalsverðum árangri eða komast að einhverri niðurstöðu á fundinum á Madeira. Og við þurfum að vera raunsæ og gera okkur grein fyrir því að það er enn mikil hætta á að það slitni upp úr samningaumleitunum. Þetta er nánast lokatilraun af hálfu beggja hliða," þeirra sem eru með hvalveiðum og þeirra sem eru á móti þeim. „Ef okkur mistekst þurfa menn tíma til að róa sig niður."
Japönum mistókst árið 2007 að fá hvalveiðiráðið til að falla frá banni við hvalveiðum í atvinnuskyni, sem gilt hefur frá árinu 1986. Japanar hótuðu þá að ganga úr ráðinu en William Hogarth, formaður ráðsins, fékk þá ofan af því og hefur síðaan reynt að beita sér fyrir málamiðlun um hvalveiðar.
Morishita segir að Hogarth muni láta af formennsku á fundinum á Madeira. „Ef hvalveiðiráðinu mistekst (að ná niðurstöðu) viljum við sjá einhverskonar alþjóðlegt skipulag þar sem bæði verður fjallað um veiðar og viðgang hvalastofna."