Fjármálaráðuneytið spáir því í nýrri þjóðhagsspá að landsframleiðslan dragsist saman um 9,6% á þessu ári en standi í stað árið 2010. Einkaneysla muni dragast saman áfram. Ráðuneytið áætlar að hagvöxtur hafi numið 0,1% á síðasta ári vegna samdráttar í einkaneyslu og fjárfestingu, sérstaklega á fjórða ársfjórðungi.
Ráðuneytið segist miða við, að Seðlabankinn fylgi aðhaldssamri peningastjórn þar til gengi krónunnar sé aftur komið á flot og skýr merki séu um að jafnvægi hafi myndast á gjaldeyrismarkaði. Miðað sé við spár alþjóðastofnana um að efnahagslíf heimsins verði í lægð árið 2009 og það byrji að rofa til árið 2010. Spáir ráðuneytið því, að gengi krónunnar styrkist lítillega í ár en meira eftir því sem líður á spátímann. Spáð er að kaupmáttur launa lækki um 13,1% á þessu ári eftir 7,5% lækkun á síðasta ári og um 1,7% á árinu 2010.
Atvinnuleysi árið 2008 varð meira en í haustspá, eða 1,7% af vinnuafli, og var aukningin á fjórða ársfjórðungi meiri en dæmi eru um, að sögn fjármálaráðuneytiss. Því er nú spáð að atvinnuleysi aukist fram eftir árinu 2009, og verði að meðaltali 7,8% það ár. Árið 2010 er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði 8,6% af vinnuafli en byrji að ganga niður þegar líður á árið.
Lækkun á gengi krónunnar hefur orsakað aukna verðbólgu sem var 12,4% árið 2008. Áætlað er að verðbólga verði 13,1% árið 2009, sem er aukning um 7,4 prósent frá haustspá. Áætlað er að 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð árið 2010, þegar verðbólgan verði að meðaltali 2,7%. Spáir ráðuneytið því að stýrivextir Seðlabankans verði 13,1% á þessu ári og 4,8% árið 2010.
Viðskiptahalli á árinu 2008 er nú talinn mun meiri en í fyrri áætlunum, eða um 22,2% af landsframleiðslu, aðallega vegna mun óhagstæðari þróunar þáttatekjujafnaðar sem endurspeglar tekjuflæði milli landa af eignum innlendra og erlendra aðila hér á landi og erlendis. Spáð er að viðskiptajöfnuðurinn snúist í afgang sem nemi 6,1% af landsframleiðslu árið 2009 og 5,6% árið 2010, en slík þróun styður við endurreisn gjaldeyrismarkaðarins.