Verðbólga mun aukast um 0,7% í janúar gangi spá greiningardeildar Glitnis eftir. Þýðir það að ársverðbólga eykst úr 18,1% í 18,7%.
„Verðbólga er nú við hámark og teljum við að á næstu mánuðum muni draga verulega úr skriðþunga hennar. Frá og með febrúar taka einnig að heltast úr lestinni mánuðir mikillar verðbólgu þegar horft er til 12 mánaða hækkunartaktsins, og gerum við því ráð fyrir allhraðri hjöðnun 12 mánaða verðbólgu frá og með 2. fjórðungi ársins. Ef spá okkar gengur eftir verður verðbólga komin niður í 14% um mitt þetta ár og niður fyrir 5% í upphafi næsta árs,“ segir í Morgunkorni Glitnis.
Segir þar að gengi krónunnar sé meðal stærstu óvissuþátta í verðbólguspánni. Gert sé ráð fyrir veikari krónu framan af spátímabilinu en í síðustu spá og að hún fari ekki að styrkjast að ráði fyrr en að áliðnu næsta hausti.