Bill Gates, stofnandi bandaríska hugbúnaðarfyrirtækisins Microsoft, spáði því í dag að það muni taka allt að áratug að yfirvinna þau áhrif, sem fjármálakreppan hefur haft á alþjóðlegt efnahagslíf.
„Þau efnahagslegu skilyrði og fjármálamarkaður, sem þróast hefur á síðasta ári, eru án fordæma," segir Gates í árlegu fréttabréfi góðgerðarstofnunar, sem ber nafn hans. Fréttabréfið er 20 síður og einn kafli þess er helgaður efnahagsmálum.
„Ég vona, að eftir tvö ár þegar ég mun skrifa þetta bréf geti ég litið á þennan kafla og hugsað að það sem ég er að lýsa hafi varað stutt. En ég held að áhrif kreppunnar muni vara lengur," skrifar Gates. „Ef tekið er lengra tímabil, svo sem 5 til 10 ár, þá er ég mjög bjartsýnn á að vandamálin verði að baki," bætir hann við og segir að tækni- og vísindaframfarir muni leiða endurreisn alþjóðlega efnahagskerfisins.