Eggert Á. Sverrisson hefur verið ráðinn í starf umboðsmanns viðskiptamanna Landsbankans. Eggert mun hefja störf í Landsbankanum um næstu mánaðarmót.
Eggert útskrifaðist sem viðskiptafræðingur (cand. oecon) frá Háskóla Íslands árið 1973. Á árunum 1979-1991 starfaði Eggert hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, fyrst sem fulltrúi forstjóra Sambandsins (1979-1984), framkvæmdastjóri fjármáladeildar (1984-1986) og síðast sem framkvæmdastjóri skrifstofu Sambandsins í London (1987-1991).
Eggert starfaði sem forstöðumaður fjárstýringar í Íslandsbanka hf. á árunum 1992-1997. Á árunum 1997-2007 starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. en hefur frá 2008 rekið eigið ráðgjafafyrirtæki. Eggert hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og félagasamtaka, að því er segir í tilkynningu frá Landsbankanum.