Vildu lækka vexti en ekki IMF

Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans mbl.is/Eggert

Bankastjórn Seðlabanka Íslands taldi tímabært að hefja lækkun vaxta nú og var sú afstaða kynnt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF). Framkvæmdastjóri hans hvatti hins vegar til þess að vöxtum yrði haldið óbreyttum að sinni m.a. vegna tímabundinnar óvissu í íslenskum stjórnmálum. Bankastjórn þykir rétt að taka mið af þessum tilmælum. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands. Tilkynnt var í morgun að stýrivextir yrðu áfram 18% en þeir voru hækkaðir úr 12% í lok október.

Mat Seðlabankans er að með hjaðnandi verðbólgu muni gefast færi á að lækka stýrivexti töluvert hratt án þess að stefna markmiðum bankans í gengis- og verðlagsmálum í tvísýnu.

Hugsanlegt er að Seðlabankinn fjölgi ákvörðunardögum um vexti frá því sem áður hafði verið tilkynnt til þess að vaxtaþróunin fylgi verðbólguþróuninni eftir með eðlilegum hætti og einstakar vaxtabreytingar verði ekki óþægilega stórar. Vegna þeirra tímabundnu hafta sem sett voru á fjármagnshreyfingar til og frá landinu og upptöku skilaskyldu gjaldeyris hafa tengsl stýrivaxta og gengis að nokkru leyti rofnað um sinn. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að taka tillit til þessara tengsla þegar hugað er að vaxtaákvörðunum til lengri tíma þar sem gengið þarf að hafa nægilegan stuðning frá vöxtum þegar losað verður um gjaldeyrishömlur, að því er segir í Peningamálum.

Gengið styrkst hægar en eðlilegt er

Þrátt fyrir verulegan vöruskiptaafgang síðustu mánuðina, skilaskyldu á gjaldeyri og höft á fjármagnshreyfingum hefur gengi íslensku krónunnar styrkst hægar en Seðlabankinn vænti og telur eðlilegt. Ástæður þessa kunna að vera ýmsar.

„Meðal annars má nefna að greiðslufrestir hafa styst hjá innflutningsfyrirtækjum en lengst hjá útflutningsfyrirtækjum. Viðskiptakjör hafa versnað eins og áður segir og erfiðleikar fara vaxandi í markaðslöndum Íslands í þeirri heimskreppu sem nú gengur yfir.

Einnig kann birgðasöfnun útflutningsfyrirtækja að hafa haft nokkuð um þessa þróun að segja. Þótt gengið hafi styrkst hægar en ráð var fyrir gert standa öll efni til áframhaldandi styrkingar á næstu misserum. Það er enda þýðingarmikið," samkvæmt Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Frá því að síðasta ákvörðun bankastjórnar um stýrivexti var kynnt og bankinn birti spár sérfræðinga sinna í byrjun nóvember sl. hafa ýmsir þættir efnahagsmála skýrst, þótt óvissa sé eðli málsins samkvæmt enn afar mikil. Gengið hækkaði skarpt eftir að viðskipti hófust á millibankamarkaði á ný í desember sl. Hækkunin gekk að nokkru til baka en síðustu tvær vikurnar hefur það styrkst á ný um 10%. Raungengi krónunnar er þó enn mjög lágt og langt undir sögulegu meðaltali.

Auk þess er vaxandi afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd. Því eru forsendur fyrir umtalsverðri gengishækkun. Á móti vegur að viðskiptakjör hafa versnað nokkuð og á sumum sviðum verulega, enda hefur hagvöxtur almennt dregist saman í viðskiptalöndum Íslands. Meginviðfangsefni peningastefnunnar um þessar mundir er að stuðla að stöðugleika í gengismálum og styrkja gengi krónunnar.

Hófleg inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hafa haft jákvæð áhrif. Hrein gjaldeyrisviðskipti bankans nema aðeins liðlega 3 milljónum evra það sem af er ári, að því er segir í Peningamálum.

Spá verulegri lækkun fasteignaverðs

„Við ákvörðun um stýrivexti nú þarf ekki að huga að aðhaldi að innlendri eftirspurn. Hún hefur dregist mikið saman, sérstaklega einkaneysla af augljósum ástæðum. Horfi n eru auðsáhrif af völdum sífelldra hækkana á verði hlutabréfa og húsnæðis sem ýttu undir neyslu.

Verð á fasteignum hefur þegar lækkað og ljóst er að það mun enn lækka verulega. Atvinnuleysi hefur vaxið mun hraðar en gert var ráð fyrir í nóvember. Af þeim sökum og vegna verðbólgunnar hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna minnkað mikið og mun áfram minnka. Vonir standa til að aðilar á vinnumarkaði muni fást við þá framvindu af ábyrgð.

Tjón sem leiddi af falli bankanna hefur verið mikið og haft mikil áhrif á innlenda eftirspurn, eins og spáð var. Aðgengi að erlendu lánsfé er mjög takmarkað," að því er fram kemur í Peningamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK