Nánast jöfnuður á vöruskiptum

Nánast var jöfnuður á vöruskiptum á síðasta ári samkvæmt bráðabirgðatölum, sem Hagstofan birti í dag. Fluttar voru út vörur fyrir 467,1 milljarð króna en inn fyrir 472,7 milljarða króna. Hallinn nam því 5,6 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 127,5 milljarða á sama gengi.

Vöruskiptin í desember, reiknuð á fob verðmæti, voru samkvæmt bráðabirgðatölum hagstæð um 24,2 milljarða króna. Í desember 2007 voru vöruskiptin óhagstæð um 16,7 milljarða króna á sama gengi. 
 
Samkvæmt bráðabirgðatölunum var heildarverðmæti vöruútflutnings 35,1 milljarði meira en á sama tíma árið áður eða 8,1% á föstu gengi. Iðnaðarvörur voru 52,1% alls útflutnings og er þetta fyrsta árið, að sögn Hagsgtofunnar, frá því að skráning á árlegum útflutningi hófst með reglubundnum hætti árið 1862, sem iðnaðarvörur eru meiri en helmingur alls útflutnings og hlutdeild þeirra hærri en sjávarafurða.

Verðmæti iðnaðarvara var 46% meira á árinu 2008 en árið áður og vó ál þyngst í útflutningnum. Sjávarafurðir voru 36,6% alls útflutnings og hefur hlutfall sjávarafurða af heildarútflutningi ekki verið lægra síðan 1865. Verðmæti þeirra var 5,3% minna en á sama tíma árið áður. Stærsti liður útfluttra sjávarafurða var fryst fiskflök og dróst útflutningur þeirra saman frá árinu 2007.

Sölur á skipum og flugvélum drógust umtalsvert saman á árinu. Árið 2008 voru fluttir út fólksbílar og flutningatæki til atvinnurekstrar fyrir 6,5 milljarða.

Verðmæti vöruinnflutnings á árinu 2008 var 86,8 milljörðum minna eða 15,5% á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Stærstu liðir innflutnings 2008 voru hrá- og rekstrarvara með 31,8% hlutdeild og fjárfestingarvara en hlutur þeirra var 20,8%.

Af einstökum liðum varð mestur samdráttur, í krónum talið, í innflutningi á flutningatækjum, 48,1% (57,2 milljarðar), aðallega fólksbílum og flugvélum og í innflutningi á fjárfestingavöru 19,2% (23,3 milljarðar) og neysluvöru annarri en mat- og drykkjarvöru 21,6% (18,9 milljarðar) en á móti kom aukning í innflutningi á hrá- og rekstrarvöru 3,8% (5,5 milljarðar) og í verðmæti innflutnings á eldsneyti og smurolíum 16,8% (8,4 milljarðar).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK