Stjórn Kaupþings: Engin ákvörðun um ábyrgðir verið tekin

Kaupþing. Stjórn Nýja Kaupþings hefur enn ekki tekið ákvörðun um …
Kaupþing. Stjórn Nýja Kaupþings hefur enn ekki tekið ákvörðun um niðurfellingu ábyrgða. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stjórn Kaupþings hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort ákvörðun stjórnar gamla Kaupþings frá 25. september sl., um niðurfellingu persónulegra ábyrgða starfsmanna, standi. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu höfðu starfsmenn réttmætar væntingar um að þeir yrðu ekki í persónulegri ábyrgð fyrir lánum sem þeir fengu hjá bankanum til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum. Voru starfsmenn ítrekað hvattir af stjórnendum bankans til að selja ekki bréf sín.

Viðar Már Matthíasson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, vann nýlega álitsgerð um þá ákvörðun stjórnarinnar að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna og komst að því að hún hefði verið í samræmi við lög.

Gerð voru drög að kaupréttarkerfi bankans árið 2003 og voru þau lögð fyrir Fjármálaeftirlitið sem gerði engar athugasemdir. Í drögunum var ekki gert ráð fyrir að starfsmenn myndu bera áhættu ef bréf bankans lækkuðu. Á aðalfundi Kaupþings 2004 var samþykkt að stefna að því starfsmenn eignuðust allt að 9% hlutafjár í bankanum. Í samþykktinni var jafnframt áréttað að starfsmenn bæru ekki persónulega ábyrgð ef illa færi.

Þær upplýsingar fengust frá Kaupþingi að ástæða þess að engin ákvörðun hefði verið tekin er að ýmis skattaleg álitaefni er snúa ekki aðeins að starfsfólkinu, heldur bankanum sjálfum, eru óleyst.

Ef skuldir eru felldar niður telst ívilnunin sem í slíku fellst skattskyldar tekjur á grundvelli laga um tekjuskatt nema í vissum tilvikum, t.d. þegar eftirgjöfin tengist gjaldþroti viðkomandi einstaklings eða nauðasamningum. Ívilnun sú sem fólst í ákvörðun stjórnar Kaupþings frá 25. september sl. um að fella niður persónulega ábyrgð hjá stjórnendum Kaupþings, sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en sem niðurfellingu skulda, fellur ekki undir slík tilvik og er því skattskyld á grundvelli laga um tekjuskatt.

Talið er að starfsmenn Kaupþings skuldi bankanum 40-50 milljarða króna. Munu þeir starfsmenn sem í hlut eiga líklega þurfa að greiða 35,72% tekjuskatt af þeim ávinningi sem þeir hljóta á grundvelli ákvörðunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK