Félag á eyjunni Tortola geymdi hlutabréf í Landsbankanum fyrir bankann sjálfan og seldi honum þau síðan aftur nokkrum árum síðar þegar starfsmenn sem áttu kauprétti nýttu þá. Með þessu varði bankinn sig fyrir hækkunum á hlutabréfunum sem starfsmennirnir áttu rétt á að kaupa án þess að það hefði áhrif á eiginfjárstöðu bankans.
Í byrjun mars 2007 seldi Peko síðan öll hlutabréf sín í Landsbankanum, 129,7 milljónir hluta. Í sömu viku keypti Landsbankinn í Lúxemborg nánast sama magn bréfa, 128,5 milljónir.
Í fyrsta lagi að kaupa bréfin á þeim degi sem kauprétturinn var nýttur. Þá yrði bankinn að kaupa bréfin á gengi þess dags. Með því myndi töluverður kostnaður leggjast á bankann þar sem bréf hækkuðu í flestum tilfellum mikið frá því að kaupréttir voru gerðir og þar til þeir voru nýttir.
Í annan stað gat banki keypt bréfin og átt þau sjálfur þangað til kæmi að nýtingu kaupréttar, sem í flestum tilfellum var nokkur ár. Slík eign var hins vegar dregin frá eigin fé bankans og rýrði þannig meðal annars útlánagetu hans.
Þriðji möguleikinn, og sá sem Landsbankinn valdi, var að láta félag sem var ekki í eigu bankans „geyma“ hlutabréfin sem starfsmenn hans áttu kauprétt á fram að nýtingu. Bankinn gerði síðan samning við félagið um að kaupa bréfin til baka á umsömdu gengi eftir nokkur ár þegar kom að því að nýta kaupréttinn. Félagið, sem í sumum tilvikum var í eigu sjálfseignarsjóða, fékk síðan greidda þóknun sem samsvaraði þeim kostnaði sem „geymsla“ hlutanna bakaði því.