Evrópski þróunarbankinn (CEB) hefur ákveðið að opna á ný fyrir viðskipti við Orkuveitu Reykjavíkur, en þau lokuðust við hrun íslenska fjármálakerfisins síðastliðið haust. Með því opnast á ný lánalína til arðbærra virkjunarframkvæmda Orkuveitunnar á Hellisheiði.
„Íslensk fyrirtæki hafa mátt búa við það frá því í byrjun október, að erlendar fjármálastofnanir hafa að miklu eða öllu leyti lokað á viðskipti við íslensk fyrirtæki. Fjármögnun nýframkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur komst í uppnám af þessum sökum, jafnvel þótt ljóst væri að tekjur fyrirtækisins í erlendri mynt tryggðu að það hefði alla burði til að standa við skuldbindingar sínar.
Frá bankahruninu hefur Orkuveita Reykjavíkur unnið náið með erlendum fjármálastofnunum. Þær hafa ekki dregið burði Orkuveitu Reykjavíkur í efa, en hafa haldið að sér höndum vegna almennra erfiðleika á íslenskum fjármálamörkuðum. Stjórn CEB ákvað á fundi sínum föstudaginn 30. janúar að opna á ný fyrir lánalínu, sem bankinn samdi um við Orkuveitu Reykjavíkur vegna framkvæmda við Hellisheiðarvirkjun. Greiðslan nú nemur 6,4 milljörðum króna, eins og um var samið, og er vegna þriðja áfanga virkjunarinnar, sem tekinn var í notkun síðastliðið haust," að því er segir í tilkynningu.