Vísar ásökunum Shearers á bug

Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson.
Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson. mbl.is/Sverrir

„Ég gef lítið fyrir þau ummæli sem Tony Presley Shearer hefur viðhaft fyrir þingnefnd í Bretlandi og tel að [þau] verði að skoða í því ljósi að fljótlega eftir yfirtöku Kaupþings á Singer & Friedlander tjáðum við honum að hann væri ekki í framtíðaráformum okkar," segir í yfirlýsingu frá Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings.  

Sigurður segir í yfirlýsingunni að sér þyki furðulegt að „þessi maður sé að tjá sig með þeim hætti sem hann gerir, því undir hans stjórn hafði breska fjármálaeftirlitið gert alvarlegar athugasemdir við rekstur Singer & Friedlander og kom það í hlut stjórnenda Kaupþings að lagfæra þau mál.“

Sigurður segir að fjármálaeftirlitið hafi kannað Kaupþing mjög rækilega í tvígang án nokkurra teljandi athugasemda og alfarið vísað á bug ávirðingum Shearers.

„Ég harma það annars að nota eigi nafn Kaupþings í þeim pólitíska tilgangi að koma höggi á breska fjármálaeftirlitið, en Kaupthing Singer & Friedlander var í mjög góðu ástandi allt þar til tilraun var gerð til að þjóðnýta Glitni vikuna fyrir fall bankans,“ segir Sigurður.

Afstaða Shearers breyttist við uppsögn
Fyrrverandi stjórn Singer & Friedlander deildi áhyggjum Shearers, fyrrverandi forstjóra, um að stjórnendur Kaupþings væru ekki hæfir til þess að stýra breskum banka, að sögn Shearers. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann sendi breskri þingnefnd sem rannsakar fjármálaeftirlit í Bretlandi. Hann segir Sigurð Einarsson hafa boðið sér stöðu stjórnarformanns í fyrirtækinu eftir kaupin, en hann segist hins vegar hafa sagt starfi sínu lausu áður. „Ég var ekki tilbúinn að axla ábyrgð gagnvart breska fjármálaeftirlitinu á fyrirtæki sem var í eigu Kaupþings og þar sem stefnumörkun og daglegur rekstur var undir ríkum áhrifum frá þeim Íslendingum sem í hlut áttu,“ segir Shearer í yfirlýsingu sinni.

Sigurður Einarsson hafnar þessu: „Frá fyrstu kynnum hafði hann tekið okkur mjög vel en eftir að við sögðum honum upp þá breyttist afstaða hans gagnvart Kaupþingi á undurskömmum tíma, enda tók hann uppsögninni þunglega. Við buðum honum þá að vera stjórnarformaður til skamms tíma á meðan yfirtakan færi í gegn, en hann afþakkaði það," segir Sigurður.

Tony Shearer, fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander.
Tony Shearer, fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK