Fjármálaeftirlitið kallaði árið 2007 eftir skýringum á ákveðnum þáttum varðandi fyrirgreiðslu til félaga sem geymdu kaupréttarbréf starfsmanna Landsbankans. Var það gert í tengslum við skoðun á útlánaáhættu bankans.
Samkvæmt svari frá FME fengust skýringar á þeim atriðum sem spurt var um en ekki var hægt að fjalla nánar um þær skýringar vegna þagnarskyldu eftirlitsins.
Morgunblaðið hefur síðustu daga greint frá því hvernig Landsbankinn varði sig gegn hækkunum á verði hlutabréfa bankans sem starfsmenn áttu kauprétt á. Félög, sem voru vistuð til dæmis í Panama og á Jómfrúaeyjunum, keyptu bréfin og geymdu þangað til starfsmenn nýttu kauprétt sinn.
Kristján Gunnar Valdimarsson, fyrrverandi forstöðumaður skattasviðs Landsbankans, var skráður tengiliður félaga hér á landi.
Hann segir að starfsmenn hafi greitt fullan tekjuskatt af hagnaði samninganna og Landsbankinn launatengd gjöld. Kauprétturinn hafi verið skráður á nafn starfsmanns og ekki hafi verið heimilt að framselja réttinn til félags, íslensks eða erlends.