Ákvörðun Barack Obama Bandaríkjaforseta um að setja hálfrar milljón dala launaþak á forstjóra fjármálafyrirtækja sem hljóta opinbera aðstoð við að vinna sig út úr kreppunni mælist misjafnlega fyrir hjá fjármálafyrirtækjum.
Vilja ýmsir þannig meina að ákvörðunin geti fælt hæfileikafólk frá fjármálageiranum, ásamt því að seinka endurreisn hans.
„Frá okkar bæjardyrum séð hefur ákvörðunin letjandi áhrif á fjármálafyrirtæki um að leita sér aðstoðar. Það mun aðeins verða til þess að lengja viðreisnartímabilið,“ sagði Patrick O'Hare, sérfræðingur hjá rannsóknafyrirtækinu Briefing.com.
Þá sagði Douglas McIntyre, sem starfar hjá fjármálavefsíðunni 24/7, að takmörkin gætu haft þær afleiðingar að bönkum sem eigi í vandræðum muni reynast erfitt að halda í bestu stjórnendur sínar.
Ekki fylgir sögunni að hvaða störfum þetta atgervisfólk eigi að hverfa í því ástandi sem nú er uppi í nær öllum hagkerfum heimsins.