Eftir Sigrúnu Ásmundsdóttur
Öll innlán vegna Kaupþing Edge-reikninga í Noregi, Finnlandi og Austurríki hafa verið greidd upp og verið er að vinna úr málum sem tengjast slíkum reikningum þýskra innstæðueigenda. Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings banka hf., segir ljóst að ekkert falli á ríkissjóð eða skattgreiðendur vegna reikninganna.
Reikningarnir voru gerðir upp þannig að samkomulag var gert við yfirvöld viðkomandi landa og komið í veg fyrir brunaútsölur á eignum. Stór hluti eigna útibúanna hefur í kjölfarið verið fluttur til Íslands.
Bókfært verð Kaupþings banka hf., sem er erlendi hlutinn sem varð eftir við uppskiptingu bankans, er nú tæpir þrjú þúsund milljarðar. Virði bankans var sex þúsund milljarðar við bankahrunið og þar af voru 1.500 milljarðar færðir í Nýja Kaupþing. Sá hluti var svo færður niður.
Steinar upplýsir að skipurit Kaupþings banka hf. líti nú þannig út að fjögur svið hafi verið mynduð; eignastýringarsvið, lögfræðisvið, fjármálasvið og kröfuhafasvið. Framkvæmdastjóri er yfir hverju sviði fyrir sig. Þessu til viðbótar eru erlendir ráðgjafar á lögfræðisviði og í fjárhagsráðgjöf. 30 manns vinna í bankanum fyrir skilanefnd.
Kröfuhafar á bankann hafa lýst því yfir að þeir kæri sig ekki um brunaútsölur á eignasafninu, heldur vilji þeir að nægur tími gefist til að vinna úr eignunum, sem eru helst útlán, og virði þeirra verði þannig hámarkað.