Í tölvupósti, sem viðskiptaráðuneytið sendi til breska fjármálaráðuneytisins 14. ágúst á síðasta ári, segir að algerlega sé ljóst samkvæmt íslenskum lögum, að Tryggingasjóður innlána verði að greiða innlán upp að 20.887 evrum, fari svo að bankar fari í þrot og geti ekki greitt innistæðuleigendum.
Þess vegna muni stjórn sjóðsins ávallt leita fyrir sér með lánveitingu komi til þess að greiða þurfi út innlánstryggingu.
Tölvupósturinn er svar við tölvupósti Clive Maxwell, ráðuneytisstjóra breska fjármálaráðuneytisins, sem spurðist þann 7. ágúst fyrir um túlkun á íslenskum lögum varðandi tryggingar á innistæðum í íslenskum bönkum. Var þetta gert vegna þess að bresk stjórnvöld voru að fjalla um Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi.
Í svari íslenska ráðuneytisins segir m.a., að ábyrgð sjóðins á innistæðum umfram 20.887 evrur sé takmörkuð við það fé, sem kunni að vera í tryggingasjóðnum eftir að búið er að greiða út lágmarks tryggingu.
Frekari skeytasendingar fóru fram á milli ráðuneytanna tveggja í kjölfarið. Þá átti Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, fund með Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, í Lundúnum um málið í september og eftir setningu neyðarlaganna á Íslandi í októberbyrjun ræddust Darling og Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, við í síma.