Alcan á Íslandi greiddi 1,4 milljarða króna í tekjuskatt árið 2007, 230 milljónir króna fóru í greiðslu fasteignagjalda og fyrirtækið keypti á síðasta ári vörur og þjónustu af rúmlega 800 innlendum aðilum fyrir 5,4 milljarða króna fyrir utan orkukaup. Þetta kemur fram í samantekt Ólafs Teits Guðnasonar framkvæmdastjóra samskiptasviðs Alcan á Íslandi.
Ólafur birtir grein á vefsíðu Alcan á Íslandi sem er svar við grein sem Indriði H. Þorláksson birti nýverið á vef sínum og hefur fengið umfjöllun í fjölmiðlum. Þar rekur hann ávinning þjóðarbúsins af starfsemi álversins í Straumsvík hér á landi.
Ólafur Teitur bendir á að tekjuskattur álversins nemi 3% af öllum tekjusköttum ríkisins af lögaðilum þetta ár. „Hún er hærri en allur tekjuskattur af fiskveiðum, sem var rúmur milljarður. Hærri fjárhæð kom sem sagt frá þessu eina fyrirtæki. Hún er líka hærri en tekjuskattur allra fyrirtækja í hótel- og veitingahúsarekstri, hugbúnaðargerð og tengdri ráðgjöf, og lögfræðiþjónustu – samanlagt. Öll verslun í landinu greiddi 4,8 milljarða í tekjuskatt, þannig að álverið í Straumsvík greiddi meira en fjórðung af tekjuskatti allra verslunarfyrirtækja á Íslandi. – Hafa þau fyrirtæki kannski litla efnahagslega þýðingu? Vissulega veita þau fleira fólki atvinnu en álverið, en það felur væntanlega ekki í sér neinn „raunverulegan“ ávinning fyrir landsmenn því störfin hefðu orðið til hvort sem er, svo notuð sé vinsæl röksemd.“
Grein Ólafs Teits á vefsíðu Alcan á Íslandi.