Örlög bankanna réðust með falli Lehman Brothers

Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, segir á heimasíðu Seðlabankans í dag, að með hruni bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Brothers í september á síðasta ári hafi örlög íslensku bankanna verið endanlega ráðin. Ekkert hefði getað bjargað þeim þegar þar var komið.

Um er að ræða erindi, sem Ingimundur ætlaði að flytja á málstofu í Finnlandi í dag en forfallaðist.

Ingimundur segir, að eftir á að hyggja hefði öruggasta leiðin til þess að koma í veg fyrir hrun bankanna e.t.v. verið sú að setja í upphafi þrengri skorður við starfsemi þeirra en fjármálafyrirtækja í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins, þ.e. að þeir fengju ekki að njóta þeirra réttinda sem
EES-samingurinn fól m.a. í sér fyrir fjármálafyrirtæki. Þar með hefði Ísland ekki orðið fullgildur þátttakandi í innri markaði Evrópusambandsins.

„Ég læt öðrum eftir að svara því hvort stjórnmálalegur stuðningur hefði verið við hamlandi reglur á bankana á sínum tíma. Hins vegar blasir við að bankarnir nýttu kjöraðstæður til þess að vaxa hraðar en  langtímaforsendur reyndust til eins og mál skipuðust. Hlutfallsleg stærð þeirra leiddi til þess að þeir urðu viðkvæmari en margur annar fyrir breytingum til hins verra í umhverfi sínu, hvað þá hamförum eins og gengið hafa yfir alþjóðlegt fjármálaumhverfi undanfarið ár. Spurningunni um hvenær hefði átt að grípa inn í framvinduna og með hvaða hætti er hins vegar vandsvarað. Fáir ef nokkrir sáu fyrir hamfarirnar í alþjóðlegu fjármálakerfi. Ýmsir lærdómar verða eflaust dregnir af reynslu síðustu ára, þ.m.t. um samþjöppun eignarhalds á fjármálafyrirtækjum, fjármálaleg tengsl eigenda og fjármálafyrirtækja, eignarhald fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum í öðrum atvinnurekstri o.s.frv." 

Erindi Ingimundar Friðrikssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK