Eftir Björgvin Guðmundsson
Við stofnun Nýja Kaupþings voru 935 milljarðar króna færðir á afskriftareikning. Fyrir voru 19 milljarðar á afskriftareikningi. Samtals er því gert ráð fyrir að 954 milljarðar af lánum sem veitt voru í gamla Kaupþingi fáist ekki endurgreiddir.
Ólafur Garðarsson, hæstaréttarlögmaður og aðstoðarmaður Kaupþings í greiðslustöðvun, segir þetta vera bráðabirgðamat unnið af fjármálaráðgjafarfyrirtækinu Oliver Wyman. Fulltrúar Wyman vinna við að meta eignir og skuldir nýju viðskiptabankanna.
Í glærukynningu sem kynnt var kröfuhöfum á fundi á Nordica í fyrradag kemur fram að eigið fé Kaupþings er neikvætt um 807 milljarða. Fyrir rúmu hálfu ári var eigið fé jákvætt um 424 milljarða króna. Þetta eru umskipti upp á 1.230 milljarða króna sem hægt er að túlka sem tap bankans á hálfu ári.
Spurður hvers konar lán þetta séu segir Ólafur að um sé að ræða lán til einstaklinga og fyrirtækja. Bæði sé um innlenda og erlenda aðila að ræða.