Skoski kaupsýslumaðurinn Sir Tom Hunter er talinn vera að undirbúa tilboð í 35% hlut Baugs í bresku verslunarkeðjunni House of Fraser. Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Sunday Times í dag.
Hunter á 11% hlut í verslunarkeðjunni, sem m.a. rekur verslanir í Edinborg og Glasgow. Hunter stóð ásamt Baugi, FL Group, Bank of Scotland og enska kaupsýslumanninum Kevin Stanford að yfirtökunni á House of Fraser árið 2006.
Daily Telegraph segir á vef sínum í dag, að Stanford, sem m.a. stofnaði verslunarkeðjuna Karen Millen, sé að íhuga að bjóða í 35% hlut Baugs í tískuvörukeðjunni All Saints en Stanford á yfir helmings hlut í keðjunni.
Þá segir blaðið, að kaupsýslumennirnir Sir Philip Green og Theo Paphitis munu væntanlega reyna að kaupa eitthvað af eignum Baugs í Bretlandi. Fjárfestingarsjóðirnir
Bridgepoint, Alchemy, Sun Capital Partners og Permira eru einnig sagðir renna hýru auga til þeirra.