Það að Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, neiti að segja af sér er neyðarlegt, segir Lars Christensen, yfirmaður greiningardeildar Danske Bank, í samtali við Bloomberg fréttastofuna. Segir hann að ljóst sé að stjórnvöld eigi ekki að hafa afskipti af rekstri Seðlabankans en miðað við öll þau mistök sem hafi verið gerð þá ætti bankastjórn Seðlabankans að hafa þegar sagt af sér.
Thomas Haugaard, hagfræðingur hjá Svenska Handelsbanken í Kaupmannahöfn, segir í samtali við Bloomberg að það sé grundvallaratriði að Ísland komi á trúverðugleika varðandi efnahagsstefnu sína. „Það er skiljanlegt að það sé hreinsað til í kerfinu. Seðlabankinn hafi skyldur til þess að hafa sýn yfir fjármálakerfið og þeir áttu að sjá hversu alvarlegir hlutir væru að gerast," segir Hauggaard.
Bloomberg hefur eftir Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, að hvar sem er í heiminum hefðu seðlabankastjórar sagt af sér ef ríkisstjórn landsins lýsir því yfir að hún vilji bankastjórnina frá.
Fram hefur komið að Már Guðmundsson hafi verið beðinn um að taka við starfi seðlabankastjóra og segir Christensen Má vera einn besta hagfræðing Íslands. Hann sé með góð alþjóðleg tengsl og hann geti leitt til þess að íslenskt efnahagslíf rétti úr kútnum á ný.
Frétt Bloomberg í heild