Kreppa gengin í garð í Lettlandi

Efnahagsumrótið leiddi til óeirða í Riga.
Efnahagsumrótið leiddi til óeirða í Riga. Reuters

Hagkerfi Lettlands dróst saman um 10% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, samkvæmt tilkynningu lettnesku hagstofunnar, en þessi tala þýðir að þetta Eystrasaltsland með blómstrandi efnahag í eina tíð hefur nú náð því viðmiði sem skilgreint hefur verið sem kreppuástand.

Niðurstaðan þýðir einnig að meðal 27 aðildarríkja Evrópusambandsins er efnahagsástandið hvergi verra. 

Segja má að efnahagur Letta hafi verið í frjálsu falli síðustu þrjá mánuði ársins með miklum samdrætti í iðnframleiðslu, verslun og hótel- og veitingahúsageiranum, að því er hagstofan sagði en um er að ræða brábirgðaniðurstöðu sem kann að verða endurskoðuð síðar.

Lettar sem hafa þegið 7,5 milljarða evra, liðlega 1 þúsund milljarða kr., í alþjóðlega aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og norrænum nágrannaríkjum, stóð einnig verst ESB-landa í efnahagsmálum á þriðja ársfjórðungi en þá dróst landsframleiðslan saman um 4,6% milli ára.

Hagstofa Lettlands  áætlar að landsframleiðslan hafi fallið um 10,5% síðustu þrjá mánuðina 2008 miðað við sama tíma í fyrra. Hún staðfesti að sú tala félli undir þau viðmið sem almennt eru notuð til að skilgreina kreppu, þ.e. 10% fall landsframleiðslu.

Lettland var um árabil með mestan hagvöxt aðildarlanda ESB. Sumir hagfræðingar telja að landsframleiðslan geti dregist saman um önnur 10% á yfirstandandi ári.

Samdráttur hefur almennt verið skilgreindur sem lækkun landsframleiðslu tvo ársfjórðunga í röð en hagfræðingar eru ekki á einu máli um skilgreininguna á kreppu sem enn krappari efnahagssamdrátt.  Aðrir þættir sem þar geti komið til álita sé hversu lengi efnahagslægðin varir, eða hvort henni fylgi verðhjöðnun, afar viðsjárvert samspil lækkunar í framleiðslu, verðlagi og launum, eða fjöldaatvinnuleysi á borð við það sem ríki í kreppunni miklu kringum 1930.

Verðbólga í Lettalandi var í janúar 9,8% eða hærri en í nokkru öðru Evrópusambandsríki en hæst fór hún í 17,9% í maí á síðasta ári. Verðlag fór að lækka í júní sl. um leið og efnahagslífið hægði hratt á sér, og er nú svo komið að margir hagfræðingar óttast að Lettar standi frammi fyrir verðhjöðnunarskeiði.

Í nóvember hrundi annar stærsti banki landsins í eignum, Parex Bank, og var þá þjóðnýttur og á sama tíma lenti mynt landsins, lat, undir miklum gengisþrýstingi.

Efnahagsumrótið hefur líkt og hér valdið bæði þjóðfélagslegu og pólitísku uppnámi í Lettlandi sem telur um 2,3 milljónir manna. Í janúar brutust út óeirðir í Ríga í kjölfar friðsamlegra mótmæla.

Valdis Zatler, forseti hefur hótað að leysa upp þingið, komi þingmenn ekki til móts við ýmsar kröfur - svo sem breytingu á stjórnarskrá sem geri kjósendum kleift að krefjast nýrra kosninga - fyrir lok marsmánaðar.

Á sama tíma fækkar störfum og er atvinnuleysi nú orðið 8,3% en var 7% í janúar, að því er vinnumálastofnun landsins skýrði frá í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK