„Okkur grunar að bresk yfirvöld hafi beitt töluverðum þrýstingi til að takmarka vöxt Icesave í Bretlandi. Það kann að hafa hvatt Landsbankann enn frekar til að ná sér í fjármagn á öðrum svæðum þar sem staða þeirra var ekki eins þekkt, sérstaklega í Hollandi, þar sem bankinn aflaði að lokum 1,7 milljarða evra með 125.000 innistæðueigendum,“ segir í skýrslu Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega, hagfræðiprófessora, um bankahrunið á Íslandi. Kreppan nefnist „Hagkerfi bíður skipbrot“ og var birt í dag. Þeir segja ljóst að þessar aðgerðir voru studdar af íslenskum eftirlitsaðilum og sá stuðningur hafi jafnvel komið fram í markaðssetningu Icesave í Hollandi.
„Áhyggjur breskra yfirvalda af stöðu Landsbankans jukust mikið sumarið 2008 og þau reyndu að leysa vandann. Skynsamleg lausn hefði verið að skipta bankanum í tvennt; í góðan og slæman banka. Góði hlutinn hefði haldið eftir góðu eignunum og innistæður þannig verið tryggðar, bæði á Íslandi og erlendis. Ef ráðist hefði verið í þessa framkvæmd sumarið 2008 hefði endanleg niðurstaða verið Íslandi mun hagfelldari,“ segir í skýrslunni.