Hagfræðingarnir Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson segja í skýrslu, sem þeir hafa skrifað um hrun íslenska hagkerfisins, að svo virðist sem íslensk yfirvöld hafi veðjað á að endurlífgun bankakerfisins myndi eiga sér stað, en tapað.
Þeir Jón og Gylfi segja, að auðsætt áhyggjuleysi íslenskra stjórnvalda, í aðdraganda bankahrunsins, komi á óvart að gefnum fjölda viðvarana sem þau hafi fengið yfirvofandi erfiðleikum.
„Það leikur enginn vafi á að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn vissu hvað var að gerast. Lítið er vitað um opinbera ákvarðanatöku fyrir hrunið. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið virðast kenna hvor öðrum um og ríkisstjórnin hélt því fram að hún hafi ekkert vitað og skellti skuldinni á alheimskreppuna. Okkur þykir þetta ekki sannfærandi. Slíkt yfirvofandi allsherjarhrun hlýtur að hafa verið rætt af allri ríkisstjórninni. Það er því skoðun okkar að stjórn og stjórnendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins ásamt öðum yfirmönnum þar hafi vitað hvað var að gerast.
Á sama hátt hljóta allir ráðherrar ásamt yfirmönnum fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og forsætisráðuneyti að hafa vitað hvað átti sér stað. Samt sem áður brást ríkisstjórnin ekki við. Hún hefði á öllum tímapunktum getað tekið ákvarðanir sem hefðu mildað endanlega niðurstöðu. Ef ríkisstjórnin hefði brugðist skynsamlega við væri hagkerfið í mun betri stöðu nú. Með því að takast ekki á við yfirvofandi fall bankakerfisins, ef til vill í þeirri von um að óstöðugleikinn myndi hverfa, verður ekki hjá því komist að líta á sem svo að íslensk yfirvöld hafi veðjað á að endurlífgun bankakerfisins myndi eiga sér stað, en tapað," segja Gylfi og Jón í skýrslunni.