„Dómarinn féllst á beiðni okkar um heimild til greiðslustöðvunar til 4. mars eða í um þrjár vikur,“ segir Stefán Hilmarsson, fjármálastjóri Baugs Group. Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur kynnti forsvarsmönnum félagsins ákvörðun dómsins eftir hádegi í dag. Baugur Group fer því í greiðslustöðvun.
„Skuldari hefur gert grein fyrir því til hvaða ráðstafana hann hyggst grípa til að leysa vanda sinn með aðstoð aðstoðarmanns,“ segir í greinargerð sem Arngrímur Ísberg ritaði til rökstuðnings ákvörðunar sinnar. Að því gefnu hefði Baugur Group uppfyllt skilyrði um heimild til greiðslustöðvunar samkvæmt lögum.
Stjórn Baugs Group ákvað í gær að afturkalla beiðni, sem lá fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, um greiðslustöðvun fyrir 14 dótturfélög.
Ragnar H. Hall, lögmaður Baugs Group í málinu, sagði að stjórn Baugs taldi það þjóna hagsmunum félagsins og kröfuhafa best að afturkalla beðinina um greiðslustöðvun dótturfélaga. Atburðir undanfarinna, bæði í Bretlandi þar sem BG Holding, dótturfélag Baugs, og í Danmörku, þar sem Straumur hefur yfirtekið eignir M Holding, dótturfélag Baugs þar í landi, hefðu haft áhrif.