Gjaldeyrisforði minnkar vegna styrkingar krónu

mbl.is/Guðmundur Rúnar

Gjaldeyrisforði Seðlabankans minnkaði um ríflega 65 milljarða í janúar, en að sögn Greiningar Glitnis skýrir hækkun gengis krónu  stærstan hluta þeirra hreyfingar.

Forðinn var rúmir 364 milljarðar við síðustu mánaðamót samkvæmt tölum frá Seðlabanka. Er það ríflega tvöfalt meiri forði, í krónum talið, en á sama tíma í fyrra en u.þ.b. 15% lækkun frá áramótum þegar gjaldeyrisforðinn nam 429 milljörðum. Í janúarmánuði styrktist krónan hins vegar um rúmlega 12% gagnvart helstu viðskiptamyntum og hefur gjaldeyrisforðinn því, að sögn Glitnis, tekið mun minni breytingum en krónutöluhreyfingin gefur til kynna.

Seðlabankinn hefur beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði undanfarna mánuði. Glitnir segir, að þessi inngrip hafi hins vegar verið smá í sniðum en samkvæmt tölum bankans um gjaldeyrismarkað nam nettósala hans á gjaldeyri aðeins 1,3 milljörðum króna í síðasta mánuði. Segir Greining Glitnis, að verði inngripin ekki umfangsmeiri á komandi mánuðum ætti ekki að ganga verulega á gjaldeyrisforðann af þeim sökum.

Hins vegar styttist nú væntanlega í að farið verði að aflétta gjaldeyrishöftum í áföngum, og í kjölfarið verði aðkoma Seðlabankans með allt öðrum hætti en verið hefur þótt hann hafi raunar lýst sig reiðubúinn að bregðast við sveiflum á gjaldeyrismarkaði á meðan áætlun bankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðugleika og styrkingu krónu stendur yfir.

Samkvæmt tölum um útlán viðskiptabankanna námu gengisbundnar skuldir heimilanna við þá í septemberlok 277 milljörðum króna og eru þá ekki slíkar lántökur hjá öðrum fjármálafyrirtækjum meðtaldar. Í lok september síðastliðins var gengi krónu á svipuðum slóðum og í janúarlok. Glitnir segir, að gróflega megi áætla að hvert prósentustig sem krónan styrkist um þessar mundir lækki þessar skuldir um 2,5 - 3 milljarða með beinum hætti, og séu þá ótalin þau miklu áhrif sem gengisbreytingar krónu hafa á skuldastöðu í verðtryggðum lánum vegna sterkrar tengingar gengis og verðbólgu hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK