Héraðsdómur í Cádiz á Spáni hefur hafið rannsókn á því hvort Landsbankinn í Lúxemborg hafi brotið lög í viðskiptum við hundruð sumarhúsaeigenda á Costa del Sol. Að sögn spænskra fjölmiðla er aðallega um að ræða Breta, sem tóku lán með veði í sumarhúsum sínum til að fjárfesta hjá bankanum.
Fjallað er um málið í blaðinu Sydkusten, málgagni Svía á Spáni. Þar segir, að Landsbankinn hafi lokkað viðskiptavini til að fjárfesta hjá bankanum og heitið þeim góðri ávöxtun og skattaívilnunum. Þá bauðst fólkinu að taka lán út á spænskar fasteignir sínar.
Landsbankinn er sagður hafa auglýst mikið í enskum blöðum og fregnmiðum á Costa del Sol. Nú hafi skrifstofu bankans í Nueva Andalucía verið lokað og viðskiptavinirnir nái ekki sambandi við bankann.