Eftir Þórð Snæ Júlíusson
Skilanefnd Glitnis mun leggja Moderna, dótturfélagi Milestone, til stóraukið rekstrarfé ef nýjar hugmyndir um endurskipulagningu Milestone ganga eftir, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Þá munu núverandi eigendur Milestone, bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir, missa alla eign sína í félaginu en fyrri hugmyndir höfðu gert ráð fyrir því að þeir gætu eignast allt að 40 prósent í því á ný ef allt gengi eftir.
Tryggingafélagið Sjóvá, sem er í eigu Moderna, verður fært undir íslenskt eignarhald sem hluti af þessari endurskipulagningu. Heimildir Morgunblaðsins herma að skilanefnd Glitnis hafi lagt mikla áherslu á að slík tilfærsla yrði hluti af ferlinu.
Öll endurskipulagning á starfsemi Milestone þarf að samþykkjast af Sænska fjármálaeftirlitinu (FI) þar sem Milestone seldi allar íslenskar eignir sínar til Moderna í Svíþjóð í janúar 2008, en það félag er að fullu í eigu Milestone. FI þarf að samþykkja hvort aðilar geti farið með ráðandi eignarhluti í skráðum og eftirlitsskyldum félögum þar í landi.
Viðræður um endurskipulagninguna hafa staðið yfir á milli skilanefndar Glitnis og FI að undanförnu og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er búist við svari frá FI um hvort af verði í dag. Vonast er til að margir tugir milljarða króna bjargist upp í kröfur á gamla Glitni gangi endurskipulagningin eftir.