Hilmar Ragnarsson og Þórhallur Örn Guðlaugsson, fyrrum stjórnarmenn í Tali, segja að stutt stjórnarseta þeirra í IP-fjarskiptum (Tali) sé með miklum ólíkindum.
„Aldrei áður höfum við kynnst eins miklum viðskiptasóðaskap á þeim tíma sem við höfum tengst viðskiptum, kennslu í viðskiptafræðum og rekstri félaga," segir í bréfi sem þeir sendu til Samkeppniseftirlitsins og annarra stjórnarmanna í Tali. Hilmar og Þórhallur voru skipaðir í stjórn Tals af Samkeppniseftirlitinu í stað fulltrúa Teymis.
„Hafa ber í huga að samanlögð reynsla okkar spannar vel yfir 50 ár. Af framansögðu sjáum við okkur því ekki annað fært en að segja starfi okkar sem stjórnarmenn í IP-fjarskiptum lausu eins og áður kemur fram. Okkur hefur verið bent á að með því að gera það séum við að láta Teymi komast upp með að bola stjórninni frá. Það er auðvitað undarlegt að taka þannig til orða, sérstaklega þegar haft er í huga að Teymi er meirihlutaeigandi í félaginu og ætti að vilja veg þess sem mestan. Það virðist hins vegar fátt benda til þess að svo sé.
Framkoma Teymis við okkur veldur okkur miklum vonbrigðum. Það er verulega til umhugsunar hvað fyrirtækið virðist tilbúið að gang langt til að ná fram markmiðum sínum. Hver þau markmið eru er óljóst en það er alls ekki augljóst að þau tengist hagsmunum IP-fjarskipta.
Tækifæri vörumerkisins TAL virðast mikil á markaði. Það er mjög mikilvægt að til þess bærir aðilar sjái til þess að vörumerkið fái að lifa, neytendum til góða. Óskum við því fyrirtækinu IP-fjarskipti alls góðs og vonum að fyrirtækið nái fram markmiðum sínum og verði öflugt þjónustufyrirtæki á fjarskiptamarkaði. Þannig er hagsmunum neytenda best borgið," segir ennfremur í bréfinu.
Þar kemur fram, að fjármálaráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu, að brottvikning Hermanns Jónassonar úr starfi framkvæmdastjóra og ráðning Ragnhildar Ágústsdóttur í sama starf hafi verið ólögmæt.