Samruni Árvakurs og Fréttablaðsins ógiltur

Samkeppniseftirlitið hefur í dag ógilt samruna Árvakurs hf., Fréttablaðsins ehf. og Pósthússins ehf.  Segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að af honum hefði leitt að Morgunblaðið, Fréttablaðið ehf., Landsprent ehf. (prentsmiðja Árvakurs) og Pósthúsið ehf. (sem nú annast dreifingu Fréttablaðsins) hefðu verið í eigu eins og sama aðila, Árvakurs.  Þá hefðu 365 miðlar ehf. ennfremur komið inn í hluthafahóp Árvakurs sem stærsti hluthafinn með ríflega þriðjungs hlut. 

Hefði haft mjög alvarlega samkeppnishömlur í för með sér

„Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruninn hefði falið í sér mjög alvarlegar samkeppnishömlur á mörkuðunum fyrir útgáfu dagblaða, auglýsingar í dagblöðum, dreifingu dagblaða og prentun dagblaða. Hefðu samkeppnishömlurnar fyrst og fremst falist í því að markaðsráðandi staða eða einokun myndaðist á öllum mörkuðum málsins, enda hefðu tveir meginkeppinautarnir á viðkomandi mörkuðum sameinast. Með þessu hefði Morgunblaðið og Fréttablaðið verið í eigu sama aðila og misst sjálfstæði sitt gagnvart hvort öðru. Er það til þess fallið að draga úr fjölbreytni í efni og efnistökum hvors dagblaðs um sig og myndi það fela í sér verulegan skaða fyrir lesendur," að því er segir á vef Samkeppniseftirlitsins. 

Þar kemur fram að í málinu hafi því verið haldið fram að samruninn væri óhjákvæmilegur vegna erfiðrar fjárhagsstöðu umræddra fyrirtækja, en Samkeppniseftirlitið getur að vissum skilyrðum uppfylltum heimilað samruna á þeim grundvelli.  „Þó ljóst væri að fjárhagsstaða fyrirtækja á þessum markaði væri erfið tókst samrunaaðilum ekki að sýna fram á að þessi skilyrði væru uppfyllt."

Óskuðu eftir því að samruninn yrði heimilaður með skilyrðum

Samkeppniseftirlitið sendi samrunaaðilum andmælaskjal þann 4. desember sl., en í því var frummati eftirlitsins lýst og þeim gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Félögin brugðust við með því að óska viðræðna um hvort unnt væri að heimila samrunann með skilyrðum í stað þess að ógilda hann.  Samkeppniseftirlitið var reiðubúið að taka til skoðunar hvort unnt væri að heimila með skilyrðum samruna og samstarf í dagblaðaprentun og dagblaðadreifingu. 

Hugmyndir samrunaaðila byggðu á því að Fréttablaðið, ásamt Morgunblaðinu, yrði prentað hjá Landsprenti, sem áfram yrði í eigu Árvakurs. 365 miðlar ehf. myndu hins vegar ekki eignast hlut í Árvakri. Dagblaðadreifing yrði á vettvangi Pósthússins ehf. sem yrði í sameiginlegri eigu Árvakurs og 365 miðla ehf.  Viðræður um þetta áttu sér einkum stað í desember. 

„Vegna ítrekaðra óska samrunafyrirtækjanna til Samkeppniseftirlitsins um að fresta afgreiðslu málsins lá afstaða þeirra til hugsanlegra skilyrða ekki fyrir fyrr en nú í febrúar.  Viðræðum félaganna og Samkeppniseftirlitsins lauk án þess að sátt næðist um skilyrðin. Var annað félagið ekki tilbúið að fallast á skilyrði sem voru nauðsynleg til þess að afstýra samkeppnishömlum. Er samruninn því ógiltur,"  segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Hefur væntanlega ekki áhrif á söluferli Árvakurs

Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, segir að ljóst hafi verið fyrir nokkru, að kaup Árvakurs á Fréttablaðinu yrðu ekki heimiluð. Hins vegar hafi einnig legið fyrir að samkeppnisyfirvöld myndu heimila með ströngum skilyrðum samvinnu á sviði prentunar og dreifingar sem myndi skapa báðum útgáfufyrirtækjunum færi á verulegri hagræðingu.

„Hluti af þeim skilmálum hentaði ekki 365, eins og sakir standa, og því náðist ekki niðurstaða í málinu. Við teljum hins vegar, að vilji sé fyrir því af hálfu samkeppnisyfirvalda að taka málið upp að nýju ef forsendur breytast," sagði Einar.

Einar sagðist sagðist ekki reikna með að niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins yrði áfrýjað. Þá teldi hann ekki, að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins hafi áhrif á söluferli Árvakurs, sem nú er á lokastigi, þar sem lengi hafi legið fyrir að þetta kynni að vera niðurstaðan. 

Ákvörun Samkeppniseftirlitsins í heild

Fréttablaðið
Fréttablaðið mbl.is/Arnaldur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK