Gengið var í dag frá bindandi samkomulagi um að Ålandsbanken, sem er með höfuðstöðvar á Álandseyjum, kaupi rekstur Kaupthing Bank Sverige AB, Kaupthing Fonder AB og Alpha Asset Management Company. Kaupverðið er 414 milljónir sænskra króna, jafnvirði 5,7 milljarða íslenskra króna, og er það greitt út í hönd. Svarar það til um 50% af eigin fé Kaupthing Sverige.
Gert er ráð fyrir að nafni Kauphting verði breytt í Ålandsbanken Sverige. Segir Peter Wiklöf, forstjóri bankans, í tilkynningu, að Ålandsbanken hafi lengi stefnt að því að hefja starfsemi á sænskum markaði. Með kaupunum nái bankinn til 20 þúsund viðskiptavina nú þegar og veltan aukist um 20%.
Í tilkynningu frá bankanum segir, að stærstur hluti fyrirtækjalána Kaupthing Sverige sé undanskilinn í kaupunum og einnig tilteknar aðrar eignir, þar á meðal skuldabréf sem tengjast Lehman Brothers. Þessi lán og skuldabréf færast til íslenska móðurfélagsins, Kaupþings hf. Þá verður lán, sem sænski seðlabankinn veitti Kaupthing Sverige í haust til að greiða innistæður á reikningum eftir bankahrunið á Íslandi, greitt að fullu. Þetta þýðir að efnahagsreikningur Kaupthing Bank minnkar úr 9 milljörðum sænskra króna um síðustu áramót í 5 milljarða sænskra króna.
Í tilkynningu frá Kaupthing Sverige segir að Christer Villard, stjórnarformaður, að þessi niðurstaða sé jákvæð fyrir Ísland og Álandseyjar og sú besta hugsanlega fyrir starfsfólk Kaupthing Bank Sverige. Kaupverðið verði að teljast gott fyrir bæði kaupanda og seljanda miðað við núverandi markaðsaðstæður.
Ålandsbanken hefur til þessa ekkiverið með
skrifstofu eða starfsemi í Svíþjóð en hlutabréf hans eru skráð í
kauphöllunum bæði í Stokkhólmi og Helsinki. Meðal
hluthafa í Ålandsbanken eru Ingvar Kamprad, stofnandi sænsku
verslunarkeðjunnar IKEA, sem á 1% hlut en stærstu hluthafar eru
útgerðarmenn og kaupsýslumenn á Álandseyjum.