Kostnaðurinn við að tryggja skuldir ríkissjóðs Dubai er orðinn næstum því jafn mikill og við íslenskar skuldir. Fjárfestar virðast óttast að furstafjölskyldan í Dubai muni hugsanlega eiga í erfiðleikum með að standa í skilum með greiðslur. Þetta er skrifað í Financial Times.
Svonefnt skuldatryggingarálag á fimm ára skuldabréf Dubai fór í síðustu viku yfir 1.000 punkta, þ.e. yfir 10%, sem er svipað og skuldatryggingarálag íslensku bankanna um þessar mundir. Er álagið á skuldabréf Dubai um tvöfalt hærra en á skuldabréf helstu nágrannalanda.
Skuldatryggingarálag, sem á ensku nefnist CDS-spread, mælir hvað það kostar fyrir fjárfesta að kaupa tryggingu gegn því að útgefandi viðkomandi skuldabréfs geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Kostnaðurinn er mældur sem álag ofan á grunnvexti. Álagið er almennt talið vera einn besti mælikvarðinn á þau markaðskjör sem bankar og aðrir standa frammi fyrir á alþjóðamörkuðum.
Segir í frétt Financial Times að hækkun á skuldatryggingarálagi Dubai endurspegli áhyggjur fjárfesta af þróun fasteignaverðs í Dubai auk þess sem fjármálakreppan í heiminum sé talin hugsanelga hafa meiri áhrif þar í landi á viðskiptalífið í heild.
Dubai hefur nokkuð verið í fréttum hér á landi að undanförnu m.a. vegna kaupa Sjeiks Mohammed Bin Khalifa Al-Thani á 5% hlut í Kaupþingi skömmu fyrir hrun bankanna.