Í breska vikublaðinu The Observer í gær er fjallað um hversu harkalegur samdrátturinn í efnahagslífinu er í Evrópu og þá sérstaklega að evru-svæðið svonefnda virðist engu skár statt heldur en Bretland og Bandaríkin.
Höfundurinn Ashley Seager segir síðan að athygli margra hagfræðinga hafi nú snúist frá þeirri spurningu hvort London sé Reykjavík við Thamesánna yfir í þá hvort „næsta Ísland“ eigi nú betur við önnur lönd. „Þýskaland er kallað Reykjavík við Rín og Írland Reykjavík við Liffey. Brandarinn gengur út á að munurinn á Írlandi með sína ótrúlegu sprungnu fasteignabólu og Íslandi sé einn stafur og sex mánuðir.“