Eftir Þórð Snæ Júlíusson
Skilanefnd Glitnis hefur boðist til að setja allt að 20 milljarða króna inn í sænska félagið Moderna, dótturfélag Milestone, til að halda yfirráðum yfir eignum þess, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Tilboð þess efnis var lagt fyrir sænska fjármálaeftirlitið (FI) fyrir rúmri viku en heimildir Morgunblaðsins herma að eftirlitið vilji að meira fjármagn verði flutt inn í Moderna ef það eigi að verða við vilja skilanefndarinnar. Ef tilboðinu verður hafnað mun FI að öllum líkindum selja sænskar eignir Moderna sem allra fyrst á brunaútsöluverði.
Við það gæti skilanefnd Glitnis, og þar með kröfuhafar bankans, orðið af tugum milljarða króna enda virði eigna í lágmarki um þessar mundir.