Barak Obama, Bandaríkjaforseti, mun í dag skrifa undir lög um aðgerðapakka stjórnvalda upp á 787 milljarða dollara, sem er einhver stærsta aðgerð af þessu tagi í sögu Bandaríkjanna.
Meðal þess sem fyrirhugað er að gera í aðgerðaáætluninni er að veita fyrstu íbúðakaupendum sérstakan átta þúsund dollara skattaafslátt. Markmiðið er að stuðla að því að fasteignamarkaðurinn nái sér á strik á ný en hann hefur algjörlega hrunið vestanhafs eins og víða annars staðar í heiminum.
Segir í frétt á fréttavef CNN-fréttastofunnar, að þeir sem starfi á fasteignamarkaði bindi nokkrar vonir við að skattaafslátturinn muni hafa jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn. Afslátturinn komi til viðbógar við nokkra lækkun á vöxtum af íbúðalánum að undanförnu, en seðlabanki Bandaríkjanna hefur lækkað stýrivexti sína oft að unfanförnu og eru þeir nú nálægt núlli. Í Bandaríkjunum hefur stýrivaxtalækkun alla jafna bein áhrif á vexti af íbúðalánum öfugt við stöðuna hér á landi þar sem lítið samband er alla jafna þar á milli.
Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er ekki eins mikið um fjármagn sem er eyrnamerkt stórfyrirtækjunum í Bandaríkjunum og forsvarsmenn þeirra höfðu vonað, samkvæmt frétt CNN.