Facebook kúvendir í skilmálabreytingu

Reuters

Samfélagsvefurinn Facebook hefur dregið til baka umdeilda breytingu á skilmálum þjónustu vefjarins sem reitti marga notendur til reiði með tilheyrandi mótmælum á vefnum.

Tveimur vikum áður hafði Facebook breytt skilmálum gagnvart notendum á þann veg að vefurinn hélt áfram að geyma afrit af öllum færslum notenda, breytingum og uppfærslum - jafnvel þótt þeir afskráðu sig af vefnum. Fyrir þessa breytingu var stefnan að afmá öll ummerki um notandann kysi hann að hætta á vefnum.

Eftir að eðli og umfang hinnar lagalegu umorðunar skilmálanna rann upp fyrir mönnum kröfðust bæði þúsundir notenda og forsvarsmenn persónuverndarsamtaka þess að horfið yrði til hinna fyrri skilmála.

Í byrjun vikunnar virtist sem ekki yrði hlustað á mótmælin eftir að stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg, varði breytingarnar í bloggfærslu, og reyndi að sannfæra notendur um að vefnum væri treystandi fyrir gögnum notendanna.

Sólarhring síðar var komið annað hljóð í strokkinn, því að í tilkynningu á Facebook var því lýst yfir að horfið yrði til fyrri skilmála um sinn meðan farið væri betur yfir málið.

Facebook hefur hins áður horfið frá breytingum en átt það síðan til að lauma þeim aftur inn á seinni stigum og því segirThe Guardian í dag að í þetta sinn muni baráttumenn persónuverndar fylgjast grannt með því hvort einhverjar nýjar skilmálabreytingar verði kynntar til sögunnar á næstunni.

Er minnt á að árið 2006 hafi Facebook innleitt fréttasvæði, þ.e. uppfærslur á hvers kyns hreyfingum sem vinahópar vefjarins deila með sér. Í fyrstu varð mikið uppnám í notendahópnum, sem sögðu innleiðinguna illa útfærða og ganga gróflega gegn friðhelgi einkalífs þeirra. Nýjungin var afturkölluð, umtalsverðar breytingar gerðar sem fólu með sér strangari takmarkanir, en fréttasvæðið síðan innleitt að nýju og er nú talinn helsti viðskiptagrundvöllur vefjarins.

Afturhvarfið til gömlu skilmálanna er hið síðasta af röð bakslaga hjá Facebook, sem nýlega fór fram úr MySpace sem stærsti og vinsælasti samfélagsvefur netheima með rúmlega 175 milljónir notenda um allan heim.

Í síðustu viku var til dæmis greint frá því að vefurinn hefði fallist á að greiða 65 milljónir dala, jafnvirði 7,5 milljarða króna, í dómsátt í máli sem fyrrum félagar stofnandans Zuckerbergs í Harvard-háskóla höfðuðu þar sem þeir sökuðu hann um að hafa stolið viðskiptahugmyndinni að Facebook.

Upplýsingar í málsskjölunum sýna að netfyrirtækið metur sig nú sjálft á 3,7 milljarða dala - sem er umtalsvert lægra mat heldur en þegar Microsoft keypti 1,6% hlut í því árið 2007 fyrir 240 milljónir dala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK