Eivind Reiten, fráfarandi forstjóri norska álfélagsins Hydro, segir að þótt rekstarumhverfi álframleiðslu sé erfitt nú gæti sveiflan til baka orðið hröð og hafist fyrr en vari. „Það verður afar gaman þegar vindáttin breytist og hún gæti breyst afar hratt og með hraða sem sjaldan sést þar sem niðursveiflan er svo kröpp," segir Reiten á viðskiptavefnum e24.
Hydro birti í dag afkomutölur fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs. Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 868 milljónum norskra króna á fjórðungnum og 6 milljörðum norskra króna á árinu öllu. En vegna mikilla afskrifta á síðasta ársfjórðungi er niðurstaðan eftir skatta 5,8 milljarða tap.
Reiten segir, að venjulega þegar halli undan fæti hjá Hydro séu menn vanir að tala um krefjandi stöðu. „En staðan nú er meira en krefjandi," segir Reiten sem hættir störfum í mars. Verð á tonni af áli hefur m.a. lækkað úr 2600 dölum í 1400 dali á nokkrum mánuðum.
Reiten segist hins vegar ánægður með að rekstur félagsins sé traustur og vaxtaberandi skuldir engar.