Það er ljóst að fjölmargir hafa – því miður - brugðist því trausti sem að þeim var veitt og það hefur leitt af sér mestu efnahagslegar hörmungar sem að um getur í sögu Íslands. Þetta kom fram í máli Skúla Björnssonar, formanns Félags íslenskra stórkaupmanna (FÍS) á aðalfundi félagsins í dag.
„Það var traust á milli fyrirtækja, milli banka og almennings, traust milli einstaklinga, traust gagnvart stjórnvöldum og svona mætti lengi telja. Þetta traust hefur að mínu mati beðið mikinn og varanlegan skaða. Það eru mikil verðmæti fólgin í þessu orði. Þeir aðilar sem að njóta trausts í viðskiptum spara sér og þjóðfélaginu öllu mikla fjármuni auk þess sem að öll viðskipti og meðhöndlun fjármuna manna á milli verða auðveldari og léttari," að sögn Skúla.
Trúðu fagurgala bankastjóranna
Hann segir að frelsi þurfi að byggjast á trausti – og ef menn fara fram með sína útgáfu af frelsinu - til þess að græða sem mest á sem skemmstum tíma – eru þeir minna að hugsa um á hvaða tám þeir eru að troða og misbeita og misnota sér þannig traust manna og hluthafa fyrirtækja þeirra sem að þeir veita forstöðu.
„Allir bankarnir þrír sem að féllu í haust nutu mikils trausts almennings – almenningur treysti því að þar færu hæfir stjórnendur sem að gættu hagsmuna hluthafa og viðskiptavina í hvívetna. Meira að segja þegar skuldatryggingarálag á bankana náðu hæstu hæðum síðsumars, lét íslenskur almenningur leika á sig með fagurgala bankastjóra og annarra ráðamanna um ágæta stöðu og að það væru alls engar hættur í kortunum.
Það má auðvitað segja að lánsfjárkreppan, sem átti sér upptök í undirmálslánum í bandaríkjunum hafi kippt fótunum undan bönkunum hér á landi – enda nærtækasta og sjálfsagt auðveldasta skýringin.
En er það svo þegar betur er að gáð? Ég held að orsökin sé fyrst og fremst sú að menn kunnu ekki að fara með það frelsi og það traust sem að þeir nutu - þeir fóru offari með skelfilegum afleiðingum fyrir land og þjóð," að sögn Skúla.
Var hagsmunum almennings best borgið með myndun stærsta verslunarrisans?
Hann kom inn á þátt stjórnvalda og sagði að sér væri oft hugsað til þess að stjórnvöld virðast oft vera á eftir með regluverkið.
„Sem dæmi má nefna þegar samruni 10 – 11 og Hagkaupa var heimilaður árið 1999. Þar með varð til risi með 62 % markaðshlutdeild á þessum örlitla markaði. Afleiðingin er öllum ljós í dag.
Þó svo að stjórnendur stærstu verslunarkeðja státi sig að því hve almenningur hafi hagnast mikið á þessi – þá er það spurning sem við skulum spyrja okkur nú og hún er hvort hagsmunum almennings í landinu væri ekki betur borgið með mun fjölbreyttara úrvali af verslunum þar sem engin ein hefði þau áhrif sem að þessi samþjöppun peningavalds hefur veitt þessum mönnum.?
Sama gildir um fjármálaeftirlitið - það virtist ekki hafa ráðið neitt við þróunina.
Það er alltaf gott að vera vitur eftir á og auðvelt að benda á hvað betur hefði mátt fara, en að mínu viti hafa stjórnvöld brugðist trausti almennings með því einfaldlega að sjá ekki leikina fyrir og girða fyrir að almenningur fengi reikninginn.
Á meðan að herþotur leika listir sínar yfir Keflavíkurflugvelli og verjast ímynduðum óvinum frá því að ráðast á landið okkar– var efnahagur landsins óvarinn með öllu – var lagður í rúst í einu vetfangi – Maður spyr sig hvort að hér hefði ekki átt að vera til öflugt Varnarmálaráðuneyti efnahagsmála !"
Margrét tekur við formennsku
Að sögn Skúla blæðir íslenskum fyrirtækjum hægt og rólega út þegar ekkert lánsfé er á boðstólum nema gegn okurvöxtum. Ábyrgir stjórnendur sjái ekki annað fyrir sér en uppsagnir með tilheyrandi óhamingju og tapi.
Skúli hefur ákveðið að láta af formennsku í FÍS en Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, mun taka við formennskunni, fyrst kvenna.