Fóru á mis við 200 milljónir

Karl Georg Sigurbjörnsson ásamt lögmanni sínum, Ragnari H. Hall.
Karl Georg Sigurbjörnsson ásamt lögmanni sínum, Ragnari H. Hall. Mbl.is / Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fyrrverandi stofnfjáreigendur í Sparisjóði Hafnarfjarðar segja að Páll Pálsson, fyrrverandi stjórnarformaður Sparisjóðsins, hafi bent þeim á að leita til lögmannsstofu Karls Georgs Sigurbjörnssonar til að selja bréf sín í Sparisjóðnum. Verðhugmyndir hafi komið fram áður en sala átti sér stað.

Seinnihluti aðalmeðferðar í máli ákæruvaldsins gegn Karli Georg var í morgun en hann er ákærður fyrir fjársvik með því að hafa sem milligöngumaður um sölu stofnfjárbréfanna gefið fimm stofnfjáreigendum ranga hugmynd um verðmæti bréfanna. Karl, sem var milligöngumaður fyrir dótturfélag Baugs og fleiri fjárfesta, seldi bréf sem keypt voru af stofnfjáreigendum á 25 milljónir króna fyrir hlutinn hinn 10. febrúar 2006, en seldi þau á 45 milljónir króna þremur dögum síðar. Fimm stofnfjáreigendur, sem áttu hver og einn tvo hluti, fóru því á mis við 200 milljónir króna samtals.

Í vitnaleiðslunum í morgun kom fram að fyrrum stofnfjáreigendur fengu upplýsingar um verð nokkuð áður en þeir komu að máli við Karl. Nokkrir stofnfjáreigendur sem báru vitni sögðu að Páll Pálsson, fyrrverandi stjórnarmaður í Sparisjóðnum, hefði gefið þeim upplýsingar um kaupverð og bent þeim á Karl Georg. Enginn þeirra kannaðist við aðkomu Stefáns Hilmarssonar eða A Holding, dótturfélags Baugs, að kaupunum á bréfunum. Svo virðist því sem þeir hafi ekki vitað við hverja þeir væru að semja.  

Snorri L. Kristinsson, fyrrverandi stofnfjáreigandi, bar vitni og sagði að komið hefði verið að máli við sig og honum boðið að selja bréfin á tilteknu verði. Aðspurður hvort verð hafi verið rætt er hann seldi bréfin á lögmannsstofunni kvað hann svo ekki vera. „Nei, bara það sem fram hafði komið áður,“ sagði hann. Hann sagði að Karl Georg hefði annast kaupin á bréfunum, hann hafi litið svo á að hann væri milliliður en ekki raunverulegur kaupandi bréfanna.

Kannast ekki við að Karl hafi hringt í sig
Sigurður Valtýsson, núverandi forstjóri Exista og fyrrverandi forstjóri MP fjárfestingarbanka, sagðist ekki kannast við að Karl Georg hafi hringt í sig og boðið bréfin til kaups á 45 milljónir fyrir hlutinn. Borin var undir hann skýrslugerð sem tekin var af honum við rannsókn málsins fyrir tveimur árum. „Þó ég hafi sagt þarna að Karl Georg hafi hringt í mig man ég ekki á hvorn veginn það var,“ sagði Sigurður.  Hann kannaðist ekki við aðkomu A Holding eða Stefáns H. Hilmarssonar. Hann sagðist hafa litið svo á að 45 milljónir fyrir hvern hlut væri markaðsvirði bréfanna.

Magnús Ármann bar vitni símleiðis og sagði að Stefán Hilmarsson hefði komið að máli við sig og tjáð honum að stofnfjárbréf væru til sölu. Í framhaldi af því hafi hann haft samband við Karl Georg og keypt bréfin á 45 milljónir á hlut.

Dómsniðurstöðu er að vænta í málinu innan þriggja vikna lögum samkvæmt. Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK