Fjárfestingabankar keppast nú um að kaupa hlut íslenska ríkisins í bresku matvörukeðjunni Iceland, samkvæmt frétt á vef Times. Þar kemur fram að skilanefnd Landsbankans, sem tók yfir 14% hlut í keðjunni, þegar Baugur fór í greiðslustöðvun, hafi rætt við nokkra fjárfestingabanka um möguleika á að selja hlutinn.
Nefnir Times banka eins og JPMorgan og NM Rotshchild sem mögulega kaupendur. Er talið að verðmat á hlutnum verði kynnt í næstu viku með lánadrottnum. Þangað til muni bankinn ekki taka lokaákvörðun um hvort hlutir Baugs í hinum ýmsu fyrirtækjum verður seldur.
Talsmaður Landsbankans sagði í samtali við Times að engin ákvörðun hafi verið tekin um að selja hlutinn í Iceland Food Group. Hins vegar heldur heimildamaður Times sem þekkir vel til mála að bankinn ætli sér að selja hlutinn sem fyrst.