Bandarískur hagfræðingur segir í samtali við svissneskt blað, að hætta sé á að svissneska bankakerfið hrynji saman vegna þess að bankarnir hafi veitt fyrirtækjum í austurhluta Evrópu há lán, sem nú eru að falla. „Það er hætta á að Sviss fari sömu leið og Ísland," segir hann.
Þessi ummæli Arthurs P. Schmidts í blaðinu Tages Anzeiger hafa vakið talsverða athygli og hafa fjölmiðlar víða í Evrópu sagt frá þeim.
Schmidt segir, að í ýmsum löndum í austurhluta Evrópu, svo sem í Póllandi, Ungverjalandi og Króatíu, hafi þúsundir heimila og fyrirtækja tekið lán í svissneskum frönkum í staðinn fyrir lán í eigin gjaldmiðlum til að þurfa ekki að greiða eins háa vexti. Þannig séu 31% allra lána í Ungverjalandi í svissneskum frönkum og 60% lána þarlendra heimila.
Nú hafa þessi myntkörfulán skyndilega orðið mun dýrari, eins og Íslendingar þekkja, vegna þess að austur-evrópskir gjaldmiðlar hafa margir fallið líkt og íslenska króna.
„Ungverska forintan og pólska zlotyð hafa misst rúman þriðjung af verðgildi sínu gagnvart frankanum á síðustu vikum. Margar þjóðir í Austur-Evrópu eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum og eru í raun gjaldþrota," hefur Tages Anzeiger eftir Schmidt.