Vilja meira jafnræði

Alþingishúsið
Alþingishúsið Árvakur/Golli

Hags­muna­sam­tök heim­il­anna fagna frum­varpi rík­is­stjórn­ar­inn­ar um greiðsluaðlög­un, sem nú er til meðferðar hjá alls­herj­ar­nefnd Alþing­is. Sam­tök­in leggja þó til breyt­ing­ar á frum­varp­inu sem miða að því að auka jafn­ræði fyr­ir þá sem kom­ast í greiðslu­vanda.

Árni Páll Árna­son, alþing­ismaður fyr­ir Sam­fylk­ing­una og formaður alls­herja­nefnd­ar Alþing­is, sagðist í sam­tali við Morg­un­blaðið síðastliðinn mánu­dag vera þeirr­ar skoðunar að það sé til­gangs­lítið að ganga frá lög­um um greiðsluaðlög­un sem fela ekki í sér að öll veðlán séu tek­in með.  Sam­kvæmt frum­varp­inu, sem dóms­málaráðherra lagði fram fyr­ir um tveim­ur vik­um síðan nær greiðsluaðlög­un hins veg­ar ein­ung­is til veðskulda sem eru í eigu Íbúðalána­sjóðs og annarra fjár­mála­fyr­ir­tækja sem eru í eigu rík­is­ins.

Hags­muna­sam­tök heim­il­anna (HH) eru sama sinn­is og Árni Páll, þ.e. að greiðsluaðlög­un verði að ná til allra veðskulda. Í til­kynn­ingu frá sam­tök­un­um, sem send var til fjöl­miðla með um­sögn þeirra um frum­varpið seg­ir að meg­in­mark­mið til­lagn­anna sé að auka jafn­ræði  og koma í veg fyr­ir að ein­stak­ling­ar séu úti­lokaðir frá því að geta nýtt sér þessa leið. Þá seg­ir: „Í fyrsta lagi á grund­velli þess hvers eðlis skuld­ir þeirra eru, í öðru lagi á grund­velli þess hvar er til þeirra stofnað, eða hverj­ir kröfu­haf­ar eru, og í þriðja lagi á grund­velli þess hvernig þeir hafa aflað sér tekna síðustu ár. Að auki vilja HH leggja áherslu á að frum­varpið get­ur aðeins leyst vanda þeirra sem eru hvað verst stadd­ir og lenda í greiðsluþroti en alls ekki vanda allra heim­ila í land­inu.“

Hags­muna­sam­tök heim­il­anna leggja áherslu á að bráðaaðgerðir stjórn­valda feli í sér eft­ir­far­andi:

Al­menn­ar leiðrétt­ing­ar á geng­is- og verðtryggðum lán­um heim­il­anna.

Af­nám verðtrygg­ing­ar.

Jöfn­un á áhættu milli lán­veit­enda og lán­tak­enda.

Að veð tak­markist við þá eign sem sett er að veði.

Sam­fé­lags­lega ábyrgð lán­veit­enda.

Þá leggja sam­tök­in fram kröf­ur um bráðaaðgerðir vegna stöðu heim­il­anna í land­inu:

Aðgerð #1: Taf­ar­laus tíma­bund­in stöðvun fjár­náma og nauðung­ar­upp­boða heim­ila Að lög verði sett sem komi tíma­bundið í veg fyr­ir fjár­nám og nauðung­ar­upp­boð íbúðar­hús­næðis til 1. nóv­em­ber 2009, á meðan unnið er í að út­færa aðrar aðgerðir fyr­ir heim­il­in í land­inu.

Aðgerð #2: Leiðrétt­ing á geng­is­tryggðum íbúðalán­um (fram­kvæmt sam­tím­is aðgerð #3). Boðið verði upp á að geng­is­tryggð íbúðalán verði um­reiknuð sem verðtryggð krónu­lán frá lán­töku­degi hvers lán­tak­anda.

Aðgerð #3: Leiðrétt­ing á verðtryggðum íbúðarlán­um (fram­kvæmt sam­tím­is aðgerð #2). Verðbótaþátt­ur, frá og með 1. janú­ar 2008, tak­markist við efri mörk verðbólgu­mark­miðs Seðlabanka Íslands, eða að há­marki 4%. Aðgerð þessi verði fyrsta skrefið sem stigið verður til af­náms verðtrygg­ing­ar.

Aðgerð #4: Frum­varp til laga um greiðsluaðlög­un, þannig að jafn­ræðis sé gætt og að aðgerðin sem slík sé al­menn­ari og mis­muni ekki fólki byggt á eðlis skulda, hvar stofnað er til þeirra eða þess hvernig fólk hef­ur aflað sér tekna.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK