Hagsmunasamtök heimilanna fagna frumvarpi ríkisstjórnarinnar um greiðsluaðlögun, sem nú er til meðferðar hjá allsherjarnefnd Alþingis. Samtökin leggja þó til breytingar á frumvarpinu sem miða að því að auka jafnræði fyrir þá sem komast í greiðsluvanda.
Árni Páll Árnason, alþingismaður fyrir Samfylkinguna og formaður allsherjanefndar Alþingis, sagðist í samtali við Morgunblaðið síðastliðinn mánudag vera þeirrar skoðunar að það sé tilgangslítið að ganga frá lögum um greiðsluaðlögun sem fela ekki í sér að öll veðlán séu tekin með. Samkvæmt frumvarpinu, sem dómsmálaráðherra lagði fram fyrir um tveimur vikum síðan nær greiðsluaðlögun hins vegar einungis til veðskulda sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs og annarra fjármálafyrirtækja sem eru í eigu ríkisins.
Hagsmunasamtök heimilanna (HH) eru sama sinnis og Árni Páll, þ.e. að greiðsluaðlögun verði að ná til allra veðskulda. Í tilkynningu frá samtökunum, sem send var til fjölmiðla með umsögn þeirra um frumvarpið segir að meginmarkmið tillagnanna sé að auka jafnræði og koma í veg fyrir að einstaklingar séu útilokaðir frá því að geta nýtt sér þessa leið. Þá segir: „Í fyrsta lagi á grundvelli þess hvers eðlis skuldir þeirra eru, í öðru lagi á grundvelli þess hvar er til þeirra stofnað, eða hverjir kröfuhafar eru, og í þriðja lagi á grundvelli þess hvernig þeir hafa aflað sér tekna síðustu ár. Að auki vilja HH leggja áherslu á að frumvarpið getur aðeins leyst vanda þeirra sem eru hvað verst staddir og lenda í greiðsluþroti en alls ekki vanda allra heimila í landinu.“
Hagsmunasamtök heimilanna leggja áherslu á að bráðaaðgerðir stjórnvalda feli í sér eftirfarandi:
Almennar leiðréttingar á gengis- og verðtryggðum lánum heimilanna.
Afnám verðtryggingar.
Jöfnun á áhættu milli lánveitenda og lántakenda.
Að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði.
Samfélagslega ábyrgð lánveitenda.
Þá leggja samtökin fram kröfur um bráðaaðgerðir vegna stöðu heimilanna í landinu:
Aðgerð #1: Tafarlaus tímabundin stöðvun fjárnáma og nauðungaruppboða heimila Að lög verði sett sem komi tímabundið í veg fyrir fjárnám og nauðungaruppboð íbúðarhúsnæðis til 1. nóvember 2009, á meðan unnið er í að útfæra aðrar aðgerðir fyrir heimilin í landinu.
Aðgerð #2: Leiðrétting á gengistryggðum íbúðalánum (framkvæmt samtímis aðgerð #3). Boðið verði upp á að gengistryggð íbúðalán verði umreiknuð sem verðtryggð krónulán frá lántökudegi hvers lántakanda.
Aðgerð #3: Leiðrétting á verðtryggðum íbúðarlánum (framkvæmt samtímis aðgerð #2). Verðbótaþáttur, frá og með 1. janúar 2008, takmarkist við efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, eða að hámarki 4%. Aðgerð þessi verði fyrsta skrefið sem stigið verður til afnáms verðtryggingar.
Aðgerð #4: Frumvarp til laga um greiðsluaðlögun, þannig að jafnræðis sé gætt og að aðgerðin sem slík sé almennari og mismuni ekki fólki byggt á eðlis skulda, hvar stofnað er til þeirra eða þess hvernig fólk hefur aflað sér tekna.