Beinar peningalegar eignir íslenskra aðila í þekktum skattaskjólum tæplega fimmtíufölduðust frá árinu 2002 til loka ársins 2007, jukust um 4600 prósent.
Í árslok 2002 námu samanlagðar beinar peningalegar eignir Íslendinga á Bresku Jómfrúaeyjunum (Tortola), Kýpur, Cayman-eyjum, Guernsey, Mön og Jersey samtals 945 milljónum króna. Árið 2007 voru þær orðnar 43,7 milljarðar króna samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands.
Vert er að taka fram að ekki er um tæmandi eign íslenskra aðila á þessum stöðum að ræða, heldur einungis beina eign. Óbein eign í félögum á þessum stöðum er til dæmis í gegnum félög skráð í Hollandi eða Lúxemborg. Íslenskir aðilar áttu samtals um 614 milljarða króna í beinum peningalegum eignum í þessum tveimur löndum í árslok 2007. Heimildir Morgunblaðsins herma að dótturfélög íslenskra banka í Lúxemborg hafi stofnað mörg hundruð eignarhaldsfélög fyrir viðskiptavini sína á Tortola-eyju í Karíbahafinu á undanförnum árum.
Mest af beinum peningalegum eignum Íslendinga í þekktum skattaskjólum var geymt á eyjunum Mön og Kýpur eða um 32 milljarðar króna. Peningar sem Íslendingar geyma á báðum eyjunum hafa margfaldast á undanförnum árum.
Alls stunda 58 félög frá Kýpur bankastarfsemi hérlendis og er þorri þeirra í umsjón íslenskra banka.
Stærsti eigandi Landsbankans fyrir bankahrun, Samson eignarhaldsfélag, var í helmingseigu kýpversks félags, Bell Global Investments. Það félag er í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar. Virði eigna þess félags er ekki meðtalið þegar talað er um peningalegar eignir Íslendinga á Kýpur, enda var eign Bell Global Investments í bankanum ekki bein heldur í gegnum þriðja aðila, Samson eignarhaldsfélag.