Glitnir breytist í Íslandsbanka

Nýi Glitnir breytir um nafn í dag og heitir nú Íslandsbanki. Var  nafnabreytingin formlega kynnt í dag en hún var boðuð í desember. Nýtt merki Íslandsbanka hefur einnig verið tekið í notkun og byggir það á eldri merkjum Íslandsbanka og Glitnis. Rauði liturinn heldur sér en formið er bein skírskotun til gamla merkis Íslandsbanka.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að bankinn hafi kappkostað að þessi breyting verði eins ódýr og mögulegt sé.„ Við endurnýtum allt það markaðsefni sem hægt er og hér er engu hent. Í mörgum tilvikum límum við einfaldlega yfir gamla nafnið og öll skilti er reynt að endurnýta. Með þessu móti tekst okkur að halda kostnaðinum við nafnabreytinguna í algjöru lágmarki.“

Nafnið Íslandsbanki varð fyrst til árið 1904 þegar Íslandsbanki var stofnaður og starfræktur fram til ársins 1930 þegar Útvegsbankinn tók yfir starfsemi Íslandsbanka. 60 árum síðar, eða árið 1990 varð Íslandsbanki til á nýjan leik þegar Útvegsbankinn, Iðnaðarbankinn, Verslunarbankinn og Alþýðubankinn sameinuðust undir nafni Íslandsbanka. Nú er Íslandsbankanafnið tekið upp í stað Glitnis eftir fall fjármálakerfisins.

Bankinn segir, að meðal þess sem leiddi til þeirrar ákvörðunar að taka á ný upp nafnið Íslandsbanki hafi verið tillögur fjölmargra viðskiptavina bankans á undanförnum mánuðum. Íslandsbanki sé verðmætt og þekkt vörumerki. Nafnið sé rótgróið og hefur mikla skírskotun í þá nýju stefnu bankans að horfa fyrst og fremst á sitt næsta umhverfi og þjónusta íslensk fyrirtæki og fjölskyldur.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri, gerir grein fyrir nafnbreytingunni.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri, gerir grein fyrir nafnbreytingunni. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK