Nýr viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, ætlar ekki að endurskoða ákvörðun forvera síns, Björgvins G. Sigurðssonar um að afhenda Morgunblaðinu ekki gögn um samsetningu innlána Icesave-reikninga Landsbanka.
Morgunblaðið óskaði eftir því í janúar að viðskiptaráðuneytið upplýsti samsetningu innlánanna, það er hversu hátt hlutfall væri frá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum, og gæfi blaðinu afrit af þeim gögnum sem nefnd á vegum þess hefði farið með á samningsfund um lausn á Icesave-deilunni.
Blaðinu var synjað skriflega hinn 26. janúar á grundvelli þess að gögnin geymdu upplýsingar um samskipti við önnur ríki. Vísaði ráðuneytið í lið sem hamlar upplýsingagjöf þegar almannahagsmunir eru í húfi. Morgunblaðið hefur áfrýjað ákvörðuninni til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Nefndin býst við að allt að áttatíu dagar geti liðið þar til málinu lýkur með úrskurði.Ástæða þess að Morgunblaðið vill upplýsingarnar er að í viðauka með tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins frá 30. maí 1994 um innlánstryggingakerfi eru tíundaðar þær stofnanir og fyrirtæki sem hægt var að undanskilja að ríkið bæri ábyrgð á. Meðal þeirra eru innlán tryggingafyrirtækja, ríkisins, bæjar- og sveitarfélaga, fjárfestingarfélaga, sem og lífeyris- og eftirlaunasjóða. Eins og Morgunblaðið hefur upplýst var það ekki gert.
Morgunblaðið vill vita hversu háa upphæð ríkið þarf nú að ábyrgjast en þyrfti ekki hefði það tekið mið af viðaukanum.