„Það sem blekkti menn mikið var þróun hlutabréfaverðs hér á landi. Það tókst lengi að halda hlutabréfum bankanna uppi og til þess þurftu þeir að nota sitt eigið fjármagn, sem veikti þá,“ segir Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP banka, í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins. Hann telur ámælisvert hvernig þetta var gert.
„Svo var alltaf verið að halda því fram að vondir útlendingar væru að halda áhættuálaginu á bankana uppi. Því til rökstuðnings var bent á þróun hlutabréfaverðs bankanna, sem hafði lækkað minna en erlendra banka. Af hverju var það? Það var vegna þess að bankarnir sjálfir héldu verðinu uppi. Þess vegna bárust ekki réttar upplýsingar í gegnum hlutabréfamarkaðinn.“