Jafnvel sérfræðingar eru gáttaðir

Paul Volcker á ráðstefnunni í New York í gærkvöldi.
Paul Volcker á ráðstefnunni í New York í gærkvöldi. Reuters

Paul Volcker, aðalráðgjafi Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, í efnahagsmálin, sagði á ráðstefnu í Columbiaháskóla í New York  í gærkvöldi, að þróun og hraði alþjóðlegu fjármálakreppunnar hefði komið sérfræðingum í opna skjöldu. 

„Fyrir ári hefðum við sagt, að ástandið væri erfitt í Bandaríkjunum en aðrir hlutar heimsins myndu standa þetta af sér," sagði Volcker á ráðstefnu Nóbelsverðlaunahafa, hagfræðinga og fjárfesta. „En hinir heimshlutarnir hafa ekki staðið þetta af sér."

Hann bætti við, að fjármálakreppa hefði farið jafn hratt yfir heiminn og nú, nema ef vera kynni kreppan mikla á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. 

Volcker, sem er 81 árs og fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði að meiri samdráttur væri í framleiðslu ríkja víða um heim en í Bandaríkjunum en það væri ein afleiðing kreppunnar í vestræna fjármálakerfinu, sem hefði hrunið saman þvert á allar spár og væntingar.

Volcker sagði ekki hvað hann teldi að kreppan muni vara lengi. En hann sagði að hægt væri að draga varanlegan lærdóm af þróuninni síðustu mánuði og misseri.  „Ég reikna ekki með að við munum taka upp samskonar fjármálakerfi og við höfðum byggt upp fyrir kreppuna," sagði Volcker.

Hann lagði áherslu á að hann hefði ekki misst trúna á kapítalismann en byggja þyrfti upp öflugri varnir til að verja hagkerfi heimsins fyrir áföllum sem þessum. 

Þá sagðist Volcker hafa áhyggjur af því valdi, sem seðlabankar, fjármálaráðuneyti og eftirlitsstofnanir hefðu aflað sér í baráttunni gegn efnahagshruninu. Sagði hann ljóst að seðlabankar víða um heim hefðu axlað hlutverk, sem væri langt umfram það sem seðlabankar ættu að leika. 

Þá lagði Volcker áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu við að skapa nýtt alþjóðlegt lagaumhverfi, einkum fyrir banka og fjármálastofnanir sem starfa í mörgum löndum. Þróunin fyrir fjármálahrunið hafði verið í gagnstæða átt. 

„Því fleiri alþjóðasáttamála sem við höfum, því betra," sagði Volcker.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK