Útilokar ekki sameiningu

Nafnabreyting á Glitni í Íslandsbanka í gær útilokar ekki að bankinn verði sameinaður öðrum banka, segir Birna Einarsdóttir bankastjóri. „Mikilvægt er að gerð efnahagsreikningar bankanna klárist áður en við förum í slíkar aðgerðir. Ég er alveg viss um að það verður skoðað þegar það er búið.“

Nafnabreytingin og auglýsingakostnaður nemur allt að 20 milljónum króna sem er um fimm til tíu prósent af þeirri upphæð sem breytingin kostaði þegar bankinn hlaut Glitnisnafnið fyrir rétt tæpum þremur árum. Bankastjóranum finnst ekki of geyst farið þó að bankinn hafi aðeins bráðabirgðaefnahagsreikning.

„Við höfum ekki litið svo á að við höfum engan efnahagsreikning. Við vitum hver útlánin og innlánin eru. Það eina sem er óljóst er verðlagning á skuldabréfinu við gamla bankann og endanleg tala á eignatilfærslum milli gamla og nýja bankans.“ Bankinn hafi því unnið sem hann hafi efnahagsreikning. „Það þýðir ekkert annað en að horfa fram á veginn og halda áfram.“

100 starfsmenn bankans völdu gamla merkið, í Glitnislitnum, sem einkenni hans. Merkið er þrykkt, límt og prentað yfir það gamla á kynningarvarningi bankans í sparnaðarskyni. Einkunnarorð bankans verða nú: fagleg, jákvæð og framsýn.

Bankastarfsemi ekki stopp

„Það hefur tekið tólf til fjórtán þúsund vinnustundir að gera þessar skilmálabreytingar,“ segir Birna. Bankinn hafi einnig brugðist við efnahagsástandinu, lækkað vexti og tekið á málum þeirra sem tóku erlend bílalán svo eitthvað sé nefnt. „Á næstu átta mánuðum stendur fólki til boða að borga eingöngu 50% af janúargreiðslu bílasamningsins.“ Bankinn gefi ekki mismuninn, heldur greiðist hann í lok lánstímans. Þetta rýri veðstöðu bankans. „En við sjáum að þetta er það mikilvægur hluti að við verðum að bregðast við með þessum hætti.“

Bankinn skoðar nú tvær leiðir til að leysa vanda þeirra sem tóku erlend húsnæðislán. Annars vegar að festa tölu lánanna í ákveðinni greiðslu, sem miði til dæmis við þá upphæð sem þeir greiddu í maí í fyrra. „[Viðskiptavinir] myndu þá greiða fasta tölu sem myndi breytast eftir greiðslujöfnunarvísitölu sem byrjað var að nota á síðasta ári. Síðan erum við að skoða aðra leið undir vinnuheitinu Tímavélin.“ Þá yrði lánið reiknað út eins og það væri innlent og verðtryggt frá þeim tíma sem það var tekið í erlendu. „Mismunurinn á þeim greiðslum sem viðskiptavinurinn hefur verið að greiða og þeim greiðslum sem verðtryggða lánið byði myndi færast aftur fyrir lánið,“ segir hún.

Mjög mikilvægt sé að jafnræðis sé gætt á milli þeirra sem tóku verðtryggð lán og þeirra sem eru með erlendu lánin. Bankinn vænti niðurstöðu fljótlega.

„Við förum ekki af stað fyrr en við getum lagt lausnir fyrir fólk og það getur valið og tekið upplýstar ákvarðanir,“ segir hún og leggur til að enginn afsláttur verði gefinn af lánunum. „Ég tel að það skapi óróa í samfélaginu auk þess sem það kostar gríðarlega peninga og lendir á skattgreiðendum.“

Fyrirtæki til sölu

„Við erum enn að reyna að leysa málin með viðskiptavinum okkar. Að sjálfsögðu veit ég að það kemur að þeim tímapunkti að við þurfum að leysa til okkar fyrirtæki. En sem betur fer er ekki komið að því enn en það fer að gerast í einhverjum tilvikum,“ segir hún. „Þá þurfum við samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki að flytja þau fyrirtæki í eignaumsýslufélag og megum ekki halda þeim hlut nema í átján mánuði.“

Birna segir að miklu máli skipti að ferli við sölu fyrirtækja sé opið og hún finni að það skipti máli í samfélaginu. „Hér innanhúss ætlum við að gera þetta eins vel og við mögulega getum og eins faglega og hægt er.“

Skuldbindandi tilboð í Árvakur voru opnuð í gær. Þrjú tilboð bárust og á starfsmannafundi kom fram að tvö þeirra þyki vert að skoða nánar. Á mbl.is kom fram að Almenningshlutafélag, undir forystu Vilhjálms Bjarnasonar og fleiri, skilaði tilboði, sem og hópur sem Óskar Magnússon hæstaréttarlögmaður leiðir auk þess sem tilboð frá ástralska fjárfestinum Steve Cosser barst.

Í hnotskurn


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka